KR tapaði 0-7 gegn Víkingi á Meistaravöllum fyrr í dag. Liðið hefur aldrei mátt þola jafn stórt tap á heimavelli í deildarkeppni. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, mætti í viðtal eftir leik.
„Það er vont að tapa 7-0, vont að tapa 7-0 á heimavelli, vont að tapa 7-0 sem þjálfari KR. Það er ekki hægt að fara í grafgötur með það að þetta er ömurleg tilfinning. Það sem stendur upp úr er að ég þurfi að skoða hvernig ég lagði upp þennan leik. Menn virtust, sérstaklega varnarlega, vera óöruggir.“
Ertu farinn að endurhugsa leikstíl liðsins?
„Ég er ekki farinn að endurhugsa leikstílinn eins og hann leggur sig. Auðvitað er það þannig að egó þjálfarans getur ekki verið að þvælast fyrir árangri liðsins. Ef það hentar liðinu betur að verjast öðruvísi. Við þurfum að skoða allt.“
Ertu orðinn áhyggjufullur fyrir að KR falli?
„Þær (áhyggjur) eru ekkert að aukast. Ég ætla ekki að hugsa um það. Ég er meðvitaður um stöðuna. Við erum í bullandi fallbaráttu og ég ber virðingu fyrir því. Það er ekki eins og ég ætli að stinga höfðinu ofan í sandinn og vona að fallbaráttan hverfi.“
„Ég held að það sé mikilvægt svo að þú getir verið trúr sjálfum þér og hugrakkur, að þú festist ekki of mikið í hugsuninni að þú sért í fallbaráttu.“
Nánar er rætt við Óskar í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir