Arsenal, Chelsea og Man Utd hafa áhuga á Vlahovic - Liverpool reynir að halda stjörnunum - City gæti krækt í Zubimendi
   fim 14. nóvember 2024 14:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ræðir um umtalaðan viðskilnað - „Ég hugsa samt að þetta sé best fyrir okkur báða"
Lengjudeildin
Jói B og Árni Guðna náðu eftirtektarverðum árangri saman.
Jói B og Árni Guðna náðu eftirtektarverðum árangri saman.
Mynd: ÍR
Árni ráðinn til ÍR.
Árni ráðinn til ÍR.
Mynd: Knattspyrnudeild Fylkis
„Það voru búin að koma nokkur tilboð áður, félög sem höfðu áhuga á honum. Það kom mér því þannig séð ekki á óvart að það myndi einhvern tímann gerast, en tímasetningin kom mér dálítið að á óvart. Við vorum nýbúnir að skrifa undir samning," sagði Jóhann Birnir Guðmundsson í viðtali við Jón Pál Pálmason í Tveggja Turna Tali.

Jói var spurður hvort það hefði komið sér á óvart að Árni Freyr Guðnason hefði tekið við Fylki í október. Árni og Jói höfðu unnið saman í þjálfarateymi hjá ÍR og náð frábærum árangri. Þeir voru m.a. valdir þjálfarar ársins í Lengjudeildinni eftir að hafa stýrt nýliðunum upp í 5. sæti deildarinnar.

„Þetta er bara fótbolti og svona er þetta bara, það kemur ekkert á óvart í fótbolta. Ef hann langaði að gera þetta (taka við Fylki) þá bara gerir hann það. Ég styð hann í því, hann er vinur minn og ég vona að honum gangi vel, nema á móti ÍR," sagði Jói sem er einn aðalþjálfari ÍR í dag.

Fylkir keypti Árna lausan frá ÍR þar sem hann var samningsbundinn. „Ég mun sakna hans, þykir vænt um Árna og mér fannst þetta leiðinlegt."

Jón Páll spurði Jóa hvort hann hefði ekki langað að fara með Árna í Fylki. Þeir höfðu unnið áður saman hjá FH og svo ÍR. Jói viðurkennir að hann hafi einungis komið í FH út af Árna og svo til ÍR út af Árna.

„Ég hugsaði það alveg (að fara með honum). Við erum góðir félagar, náum vel saman. Það stóð í rauninni aldrei til boða, það fór aldrei svo langt og ég þurfti aldrei að taka þá ákvörðun. Ég vissi að Árni hefði viljað fá mig með sér."

„Ég hugsa samt að þetta sé best fyrir okkur báða. Ég fæ aðeins að prófa mig meira áfram sem aðalþjálfari, við vorum saman, það er ekki það sama að vera einn aðalþjálfari og að vera tveir saman. Núna fæ ég að spreyta mig á verkefnum sem hann var meira að taka að sér. Það er spennandi fyrir mig, og ég held að það sé líka gott fyrir hann að fá einhvern annan. Maður þarf aðeins að breyta til. Ég myndi elska að vinna aftur með Árna einhvern tímann,"
sagði Jói.

Viðtalið má nálgast hér að neðan og umræðan um Árna og Jóa má nálgast eftir tæplega 110 mínútur af þættinum.
Tveggja Turna Tal - Jóhann Birnir Guðmundsson
Athugasemdir
banner
banner