Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mán 15. júlí 2024 14:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kominn tími til að setja virðingu á nafnið
Stelpurnar okkar unnu sigur sem verður lengi í minnum hafður
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Icelandair
Þegar sigurinn var í höfn.
Þegar sigurinn var í höfn.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það er erfitt að finna betri leiðtoga en Glódísi.
Það er erfitt að finna betri leiðtoga en Glódísi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís Jane Jónsdóttir er algjör stjarna.
Sveindís Jane Jónsdóttir er algjör stjarna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigrinum gegn Þýskalandi fagnað.
Sigrinum gegn Þýskalandi fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steini sagði gagnrýnendum að éta skítuga sokka eftir einn stærsta sigur í íslenskri fótboltasögu.
Steini sagði gagnrýnendum að éta skítuga sokka eftir einn stærsta sigur í íslenskri fótboltasögu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Karólína Lea og Sveindís Jane fagna marki gegn Sviss.
Karólína Lea og Sveindís Jane fagna marki gegn Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjáumst í Sviss!
Sjáumst í Sviss!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er ekki langt síðan umræðan var á þá leið að Þorsteinn Halldórsson væri ekki rétti maðurinn í landsliðsþjálfarastarf Íslands. Núna er kominn tími til að setja virðingu á nafnið; hann og liðið hafa unnið sér það inn á síðustu mánuðum, og sérstaklega síðasta föstudagskvöld.

Umræða var um það á kaffistofum landsins fyrir stuttu að það ætti að skipta honum út og liðið væri ekki á réttri leið undir hans stjórn. Það var ekki bara „eitthvað fólk út í bæ" eða „þessir svokölluðu sérfræðingar" sem töluðu þannig, það voru einnig fyrrum landsliðskonur sem gerðu það.

Gagnrýnin á Þorstein og liðið var á köflum nokkuð mikil. Og gagnrýnin, hún átti alveg að nokkru leyti rétt á sér.

Liðið virtist ekki þola stóru leikina. Þeir voru liðinu erfiðir. Árið 2022 var grátlegt. Stelpurnar fóru á Evrópumótið og töpuðu ekki leik, en þær náðu ekki markmiði sínu. Þær fóru ekki upp úr riðlinum.

Eftir EM var möguleiki til staðar að komast á HM í fyrsta sinn í sögunni, en það tókst ekki. Ísland þurfti jafntefli gegn Hollandi í Utrecht til að komast beint á mótið. Við vorum grátlega nálægt því að stela jafnteflinu þar, en við áttum skilið að tapa þeim leik miðað við frammistöðuna. Einhver yfirnáttúrulegur andi og Sandra Sigurðardóttir komu í veg fyrir að við töpuðum þeim leik ekki með stærri mun.

Svo kom umspil og þar fóru stelpurnar í úrslitaleik gegn Portúgal á útivelli. Frammistaðan þar var ekki góð og við töpuðum í framlengdum leik gegn liði sem við áttum að vinna. Boltinn virtist óvinur okkar í þessum leikjum og þegar við höfðum hann, þá gerðum við ekki mikið gott.

Það var gagnrýnt að Steini hefði fengið nýjan samning til 2026 fyrir EM þegar hann átti eftir að sanna það að hann væri rétti maðurinn. Sumarið og haustið 2023 ýttu svo undir gagnrýnisraddirnar þó svo að breytingarnar á liðinu hefðu verið miklar á þeim tíma. Liðið tapaði gegn Finnlandi í vináttulandsleik á heimavelli og fólk var verulega pirrað eftir 4-0 tap gegn Þýskalandi þar sem íslenska liðið var gjörsigrað. Það átti gjörsamlega engan möguleika í Bochum í Þýskalandi og hefði í raun átt að tapa stærra.

„Maður sér ekki leikplanið og maður sér enga stefnu. Það er áhyggjuefni að við getum ekki haldið bolta. Þegar við töpum boltanum og þegar við vinnum boltann, það er mjög ábótavant í okkar leik," sagði fyrrum landsliðsfyrirliðinn, Ásthildur Helgadóttir, eftir þann leik.

En tapið gegn Þýskalandi var mögulega vendipunktur fyrir þetta lið. Núna var leiðin var upp á við og eftir þann leik hefur þróunin verið jákvæð.

Íslenska liðið hefur þurft að ganga í gegnum miklar breytingar eftir umspilið fyrir HM. Meira en helmingur leikmannahópsins frá EM 2022 hefur horfið á braut af mismunandi ástæðum og aðrir leikmenn hafa þurft að stíga upp. Þetta eru engin smá nöfn sem eru ekki í liðinu í dag: Sara Björk Gunnarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sif Atladóttir, Sandra Sigurðardóttir og lengur mætti telja.

Breytingarnar tóku tíma og þegar maður horfir á nöfnin sem duttu úr hópnum, þá er það skiljanlegt. En núna eru nýjar stjörnur fæddar: Fanney Inga Birkisdóttir, Hildur Antonsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir... bara svo einhverjar séu nefndar. Og auðvitað með Glódísi Perlu Viggósdóttur sem magnaðan leiðtoga. Þú finnur eiginlega ekki betri fyrirliða og fyrirmynd en hana.

Þessi hópur hefur tekið lítil skref í hverjum glugga síðustu mánuði. Eftir vonbrigðin síðasta sumar og síðasta haust, þá átti liðið mjög góðan glugga í desember. Stelpurnar unnu sterkan sigur á Wales úti og fylgdu því eftir með mögnuðum sigri gegn Danmörku þar sem Fanney Inga í markinu stimplaði sig inn með ótrúlegum hætti.

Svo vann liðið einvígi gegn Serbíu og hélt sér í A-deild Þjóðadeildarinnar sem var mjög mikilvægt upp á það að eiga meiri möguleika á að komast EM. Loksins vann liðið úrslitaleiki og það var kominn jákvæður blær í kringum þetta nýja lið sem var í mótun. Á sama tíma var kominn jákvæðari blær í kringum landsliðsþjálfarann.

Stelpurnar mættu Þýskalandi aftur á útivelli í apríl síðastliðnum og niðurstaðan var 3-1 tap, en það var allt öðruvísi leikur en hörmungin í Bochum í fyrra. Tilfinning mín er sú að ef Sveindís Jane hefði ekki farið meidd út af snemma, þá hefði Ísland fengið meira en núll stig úr þeim leik.

Leikirnir tveir gegn Austurríki fyrir rúmum mánuði síðan voru báðir jákvæðir og var liðið óheppið að taka ekki sex stig úr þeim. Svo var það leikurinn síðasta föstudag, maður lifandi. Hvað er hægt að segja eftir þann magnaða leik?

Ísland mætti Þýskalandi, liðinu sem er í fjórða sæti á heimslista FIFA, og gjörsamlega jarðaði það; 3-0 lokatölur í magnaðri stemningu á Laugardalsvelli. Sigurinn var sannfærandi gegn fjórða besta landsliði heims. Eftir þriðja markið þá fór Þorsteinn á hnén á hliðarlínunni, það var stórt augnablik. Eftir að hafa gengið í gegnum erfiðleika, þá gekk allt upp þarna. Þetta var draumur í dós; einn stærsti sigurinn í fótboltasögu Íslands. Stelpurnar sýndu óaðfinnanlega frammistöðu; þær sýndu hversu geggjaðar þær eru.

„Þetta er eina svarið sem þú getur gefið. Vinna Þýskaland 3-0 og fara beint á EM og síðan geta allir þessir gagnrýnendur bara borðað einhverja skítuga sokka," sagði Þorsteinn léttur eftir leik.

Hann er á undanförnum mánuðum búinn að sýna að hann er rétti maðurinn í þetta starf. Steini er afar fær þjálfari - eins og hann sýndi með því að vinna, vinna og vinna með Breiðabliki - en það tók hann líklega tíma að finna taktinn, að aðlagast því að vera landsliðsþjálfari Íslands. Steini er grjótharður, svarar alltaf fullum hálsi og hefur greinilega mikla trú á sjálfum sér. Þó fólk hafi um tíma misst trúna, þá gerði hann það ekki. Og hann á skilið virðingu fyrir það starf sem hann hefur unnið með liðið, þá sérstaklega í þessari undankeppni fyrir EM sem klárast á morgun. Við þurfum ekkert umspil núna, við förum beint á mótið úr flóknum riðl.

Núna líður manni eins og liðið sé á réttri leið. Það er ekki annað hægt eftir svona sigur eins og gegn Þýskalandi þar sem liðið sýndi allt sem íslenskt landslið á að gera. Stelpurnar voru ekki sérlega mikið með boltann en þær voru alltaf hættulegar þegar þær voru með hann. Þær nýttu föst leikatriði vel og vinnusemin og baráttan var í heimsklassa. En það er ekki bara þessi eini leikur... það er erfitt að vinna þetta góða lið og maður hefur núna trú fyrir alla leiki að skemmtilegir hlutir séu að fara að gerast.

Þróunin hefur verið mjög góð frá því undir lok síðasta árs og núna er það bara að telja niður dagana að fimmta Evrópumótinu í röð. Það er svo sannarlega ástæða til bjartsýni - með þennan flotta kjarna sem hefur myndast - þegar flautað verður til leiks á EM í Sviss á næsta ári.
Athugasemdir
banner
banner