Garnacho vill ekki til Arabíu - Bayern gæti reynt við Trossard - Ferguson hefur gert munnlegt samkomulag við Roma
   mán 14. júlí 2025 21:11
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Ísak og Árni hetjurnar í sigri gegn KR
Mynd: ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 1 - 0 KR
1-0 Ísak Máni Guðjónsson ('70)

Lestu um leikinn: ÍA 1 -  0 KR

ÍA og KR áttust við í seinni leik kvöldsins í Bestu deild karla og byrjuðu gestirnir úr Vesturbænum betur, en tókst þó ekki að skora.

KR-ingar komst í nokkur fín færi en boltinn rataði ekki í netið svo staðan var markalaus í leikhlé.

Það hitnaði aðeins í kolunum undir lok fyrri hálfleiks þegar Aron Sigurðarson féll innan vítateigs en ekkert var dæmt. Erik Tobias Sandberg hellti sér þá yfir Aron sem lá í jörðinni og ákvað Helgi Mikael Jónasson dómari að dæma óbeina aukaspyrnu innan teigs. Aroni tókst þó ekki að skora þar sem Erik henti sér fyrir skotið.

Skagamenn mættu sprækir til leiks í síðari hálfleik og voru sterkari aðilinn framanaf. Þeir sköpuðu nokkrar góðar stöður án þess að skora áður en Ísak Máni Guðjónsson kom inn af bekknum og skoraði strax.

Það tók Ísak um það bil mínútu að skora eftir innkomuna eftir að fyrirliðinn Rúnar Már Sigurjónsson gaf frábæra stungusendingu innfyrir varnarlínu KR.

Gestirnir reyndu að sækja jöfnunarmark á síðustu 20 mínútunum en tókst ekki. KR-ingar fengu úrvalsfæri og hreint með ólíkindum að boltinn hafi ekki ratað í netið. Árni Marinó Einarsson gerði vel að verja í tvígang af stuttu færi. Í uppbótartíma fengu Skagamenn dauðafæri en tókst ekki að tvöfalda forystuna.

Lokatölur urðu því 1-0 og er þetta fyrsti leikur sumarsins sem KR mistekst að skora í.

Þetta er gríðarlega dýrmætur sigur fyrir Skagamenn í fallbaráttunni. Staðan í Bestu deildinni er ótrúlega jöfn, þar sem ÍA deilir botnsætinu með KA þrátt fyrir sigurinn.

Botnliðin eiga ennþá þokkalega möguleika á því að enda í efri hluta Bestu deildarinnar fyrir tvískiptingu. Stöðutaflan er það jöfn.

Liðin eiga 15 stig eftir 15 umferðir og eru einu stigi á eftir KR.
Athugasemdir
banner
banner