KA er vel á veg komið í markmannsleit sinni en félagið hefur verið í leit að markmanni til að veita Steinþóri Má Auðunssyni samkeppni í sumar. KA var komið með markmann fyrr í vetur, Jonathan Rasheed, en sá varð fyrir því óláni að slíta hásin mjög stuttu eftir að hann kom til KA.
KA menn eru bjartsýnir á að geta fengið markmann erlendis frá á allra næstu dögum.
KA menn eru bjartsýnir á að geta fengið markmann erlendis frá á allra næstu dögum.
Framundan hjá KA eru tveir leikir fram að 1. umferð Bestu deildarinnar. Í næstu viku mætir liðið Þór í úrslitaleik Kjarnafæðimótsins og þann 30. mars mætir liðið Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, ræddi við Fótbolta.net í dag. Þjálfarinn er að endurheimta leikmenn úr meiðslum en KA hefur mikið glímt við meiðsli í vetur.
„Það er ekkert launungarmál að við erum búnir að vera rosalega óheppnir á þessu undirbúningstímabili. Það er auðvelt að sjá það á leikskýrslum okkar í vetur að það eru margar vikur þar sem margir eru búnir að vera frá. En sem betur fer eru flestir að skríða saman núna fyrir mót. Það hefur vantað 8-12 menn í ansi marga leiki í röð," segir Haddi.
„Ég held að það verði 1-2 sem verða ekki klárir í fyrsta leik, aðrir ættu að verða orðnir klárir. Bjarni Aðalsteinsson er að koma frá Danmörku á miðvikudaginn og Rodri er mættur, spilaði allan leikinn í æfingaleik gegn Völsungi á laugardag. Þeir tveir hafa verið erlendis."
Fyrir utan markmanninn sem KA menn vonast eftir að fá, hvað vill Haddi gera fyrir gluggalok varðandi hópinn?
„Við viljum fá einn sterkan leikmann inn til að styrkja liðið, vonumst til að fá inn sterkan leikmann fyrir mót, erum með það í sigtinu að það komi einn leikmaður fyrir mót," segir þjálfarinn en hann vildi að svo stöddu ekki gefa upp hvar á vellinum hann væri að horfa í liðsstyrk.
Athugasemdir