Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   sun 17. júlí 2022 17:04
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sakar Þorlák um rasisma - „Leikmennirnir voru í sjokki"
Lengjudeildin
Jordan Damachoua.
Jordan Damachoua.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs.
Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs.
Mynd: Palli Jóh / thorsport
Í leik með Kórdrengjum.
Í leik með Kórdrengjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Þór í sumar.
Úr leik hjá Þór í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jordan Damachoua gekk nýverið aftur í raðir KF frá Þór á Akureyri. Damachoua, eða Damak, eins og hann er alltaf kallaður er mjög ósáttur við þjálfara Þórs, Þorlák Árnason.

Damak flutti til Íslands fyrir fjórum árum og gerði flotta hluti með KF og Kórdrengjum áður en hann hélt til Frakklands.

Hann sneri aftur til Íslands fyrr á árinu til að ganga til liðs við Þór á Akureyri. Þar fékk hann ekki að spila mikið; hann kom bara við sögu í einum deildarleik á tímabilinu.

Damak er virkilega ósáttur við tíma sinn hjá Þór, eins og hann segir frá í samtali við Fótbolta.net.

„Þegar ég kom til félagsins þá var ég sektaður vegna þess að ég gaf ekki réttar upplýsingar um bólusetningar stöðu mína, en það var allt útkljáð. Ég æfði vel en svo varð ég fyrir ökklameiðslum út af slæmum velli. Það hægði á mér. Svo sagði þjálfarinn mér að ég yrði ekki í byrjunarliðinu því ég væri sjálfselskur, að ég liti stórt á mig því ég væri að birta myndbönd af aukaspyrnunum mínum á Instagram. Hann sagði að ég væri eins og flestir franskir leikmenn," segir Damak.

Leikmaðurinn, sem er fæddur og uppalinn í Frakklandi, sakar Þorlák um rasisma.

„Á æfingasvæðinu og á fundum þá gerði hann grín að Afríku og gagnvart mér. Hann talaði um að ég væri afslappaður eða hægur eins og aðrir Afríkubúar. Á einum fundinum bendi hann á brotna hurð og sagði: 'Damak, þessi hurð er eins og hurðirnar í Afríku'. Því hurðin var brotin. Hann sagði þetta fyrir framan alla og leikmennirnir voru í sjokki. Hann talaði svo um að ég væri þannig manneskja sem væri líkleg til þess að stela. Ég sagði við hann að ég þekki fólk sem myndi slá hann fyrir svona ummæli."

Það vakti athygli á undirbúningstímabilinu að Damachoua væri ekki í liðinu hjá Þórsurum. Þorlákur gaf það í skyn að leikmaðurinn væri ekki að æfa vel og að hugarfar hans væri ekki gott.

„Eftir æfingaferðina okkar til Spánar var misskilningur varðandi bílaleigubíl sem ég var með. Þjálfarinn sagði að ég myndi ekki spila gegn KA (í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins) út af því. Hann sagði við fjölmiðla eftir leik að ég hefði ekki spilað því ég hefði æft illa, en það er ekki satt."

„Hann sagði svo að ég myndi aldrei spila, og það skipti engu máli hvernig ég æfði. Hann bauð mér að fara til Dalvíkur en ég neitaði út af því að ég vildi spila fyrir Þór. Þjálfarinn vildi losna við mig en formaður félagsins vildi það ekki. Þjálfari liðsins kom illa fram við mig, en félagið gerði það ekki."

Bara verið áfram ef þjálfarinn hefði verið látinn fara
Damak segir að það hafi verið enginn annar möguleiki fyrir hann en að fara, Þorlákur hafi einnig komið illa fram við aðra erlenda leikmenn liðsins. Hann hafi talað illa um Je-Wook Woo, kallað hann latan og barnalegan.

„Woo fór því það var illa komið fram við hann. Það er það sama með Sammie McLeod sem er farinn frá félaginu núna. Báðir eru þeir frábærir leikmenn, en þjálfarinn vill að íslenskir leikmenn spili. Hann vildi ekki spila erlendum leikmönnunum á sama tíma því þetta er íslenskt félag."

„Ég hefði bara verið verið áfram ef þjálfarinn hefði verið rekinn frá félaginu."

Þór hefur átt erfitt tímabil og er í fallbaráttu í Lengjudeildinni. „Liðið þarf reynslumeiri leikmenn. Hann var með vopnin til að berjast á toppnum en þjálfarinn er algjörlega týndur að mínu mati. Með hann við stjórnvölinn þá mun liðið sökkva. En ég óska félaginu samt alls hins besta."

Damak er glaður með að vera kominn í KF og ætlar hann að hjálpa félaginu eins og hann getur. Markmið hans er samt að spila í efstu eða næst efstu deild á Íslandi. Hann elskar að vera á Íslandi og vonast til að vera hér áfram.

„Ég óska Þórs alls hins besta. Þetta allt saman er búið að gera mig að sterkari einstaklingi," segir Damak.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner