Mo Salah var eins og skugginn af sjálfum sér þegar Liverpool mætti Newcastle í úrslitaleik deildabikarsins á sunnudag. Salah mætti Valentino Livramento, bakverði Newcastle, sem vanari er að spila í hægri bakverði, en Egyptinn sá ekki til sólar.
Salah hefur átt magnað tímabil með Liverpool og hefur slegið hvert metið á fætur öðru. Hann gerir sterkt tilkall til að vinna Ballon d'Or verðlaunin eftirsóttu seinna á þessu ári, en frammistaða hans á þessu stóra sviði hjálpaði honum ekki.
Hann virkaði lítill þátttakandi í leiknum og þegar rýnt er í gögnin kemur í ljós að Salah snerti boltann einungis 23 sinnum í leiknum (skv. Opta), sem var það lang minnsta af öllum leikmönnum sem léku allar 90 mínúturnar.
Önnur staðreynd sem stingur í augun er sú að Salah, í fyrsta sinn á tíma sínum með Liverpool, átti hvorki skottilraun né skapaði tækifæri fyrir liðsfélaga sinn í leiknum.
Athugasemdir