Aron Elís Þrándarson leikmaður Víkings er sá leikmaður í Pepsi-deildinni sem hefur verið hvað mest í umræðunni síðustu daga og vikur. Frammistaða hans í sumar hefur vakið verðskuldaða athygli og er það einungis tímaspursmál hvenær Aron Elís kveður Pepsi-deildina og heldur á vit ævintýranna í atvinnumennskuna.
Við hittum á Þránd Sigurðsson, faðir Arons Elísar en Þrándur er fyrrum knattspyrnumaður, íþróttakennari og yngri flokka þjálfari hjá Víking.
Við hittum á Þránd Sigurðsson, faðir Arons Elísar en Þrándur er fyrrum knattspyrnumaður, íþróttakennari og yngri flokka þjálfari hjá Víking.
,,Það hefur gengið vel hjá stráknum og vonandi verður það áfram. Ég vissi að hann væri efnilegur knattspyrnumaður og auðvitað vonaðist maður eftir að hann myndi springa út í sumar. Það hefur gengið vel það sem af er en það er mikið eftir," sagði Þrándur aðspurður út í það hvort hann hafði búist við svona góðri spilamennsku hjá syninum.
,,Hann er mjög fókuseraður á fótboltann og hefur alltaf verið. Hans draumur er að komast eitthvað lengra í þessu. Hann hefur fína snerpu og er hraður á fyrstu metrum og hefur góða fyrstu snertingu sem er gríðarlega mikilvægt. Hann hefur gott auga og er hættulegur þegar hann kemst á stað, einn á einn," sagði Þrándur aðspurður út í kosti Arons á velli. En hvað þarf hann helst að hugsa um til að ná enn lengra?
,,Það er enginn fullkominn og hann er langt frá því. Menn þurfa alltaf að hugsa um varnarleik og það sem er númer eitt, tvö og þrjú hjá ungum iðkendum er hugarfarið. Menn þurfa að hugsa vel um sig og fókusera á sinn eigin líkama og fara ekki framúr sér. Ég vona að hann vinni vel í því og þá held ég að honum séu allir vegir færir."
,,Hann fær þetta alls ekkert frá mér. Ég gat ekkert í fótbolta. Vonandi fékk hann eitthvað frá mér en ég var ekki eins leikmaður og hann," sagði Þrándur.
Að lokum spurðum við Þránd út í heimilsstörfin og hvort Aron Elís væri jafn góður í heimilsstörfunum og hann er á vellinum.
,,Hann er nú frekar rólegur í heimilsstörfunum. Ég held ég fari ekkert nánar út í það. Það er engin spurning að hann mætti bæta sig þar," sagði Þrándur Sigurðsson að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Viðtalið getur þú séð í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir