Mikið hefur verið rætt um að Ísland framleiði færri varnarmenn sem ná langt en það gerði áður. Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, sagði frá því í útvarpsþættinum Fótbolti.net að ákveðið hafi verið að bregðast við þessu.
„Það hefur verið kallað eftir því að við þurfum fleiri varnarmenn og laga þurfi varnarleik landsliðsins," segir Jörundur en KSÍ fær fyrrum varnarmenn úr ensku úrvalsdeildinni með sér í lið.
„Við erum að fara af stað með tilraunaverkefni núna í lok mánaðarins varðandi yngri leikmenn. Við ætlum að vera með æfingar þar sem við köllum saman eingöngu varnarmenn yngri landsliða. Inni á þeim æfingum verða kempur eins og Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimars og mögulega fleiri sem aðstoða landsliðsþjálfara okkar."
„Ætlunin er að kenna undirstöðuatriði í varnarleik, staðsetningar og svo framvegis. Þetta er tilraunaverkefni sem við ætlum að fara af stað með. Vonandi kemur eitthvað gott úr þessu. Við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að laga hlutina í samvinnu við félögin."
Athugasemdir