
"Risa hrós á KR! þetta er miklu betra lið en við mættum fyrir ári síðan. Miklu betri í að stýra leikjum, náttúrlega með frábæran þjálfara. Þetta er lið sem sækir mikið inn í hálfsvæðin og er bara með fullt af hlaupum. En það getur enginn labbað út af vellinum í dag, hvort sem það er KR-ingur eða KÁ-leikmaður, niðurlútur. Mér fannst bæði lið koma í þennan leik til að spila sinn leik. Auðvitað voru KR-ingar miklu betri en við, en það er skemmtilegt að mæta svona liði eins og í dag." Sagði Kristinn Aron, þjálfari KÁ, eftir stórt tap gegn KR fyrr í dag í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla.
Lestu um leikinn: KR 11 - 0 KÁ
"Ég held að þetta sýni strákunum í liðinu að ef þeir geta spilað sig út úr pressu á móti liði eins og KR, þá geta þeir gert það á móti liðum á okkar styrkleikastigi. Vissulega gefum við þeim 2–3 mörk í leiknum, en ég er miklu sáttari við að tapa stórt á eigin forsendum, með því að fara inn í þennan leik og reyna að spila fótbolta í 90 mínútur heldur en að fara inn í leikinn á þeim forsendum að reyna skaðaminnka með því að leggjast í lávörn og vona það besta."
KÁ er rétt að byrja sitt tímabil, en fjórða deildin hefst ekki fyrr en 7. maí næstkomandi. KÁ leikur sinn fyrsta leik þann 10. maí þegar liðið fær KFS í heimsókn. Kristinn er vongóður fyrir sumarið.
"Við erum með markmið, okkur langar að vera eitt af þessum liðum sem fer upp úr fjórðu deildinni í sumar. Við höfum unnið mjög markvisst að því í vetur og okkur hefur gengið vel. Frammistaðan okkar í dag var mjög góð, þrátt fyrir að tapið hafi verið stórt. Ef við spilum svona gegn liðum í okkar styrkleika, þá má alveg búast við að lið lendi í vandræðum á móti okkur í sumar."
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir