Salah vill framlengja við Liverpool - Al-Nassr vill fá Kovacic - Man Utd og Newcastle enn með í baráttunni um Rabiot
banner
   sun 21. júlí 2024 09:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
UEFA sá um að fresta stórleik Vals og Breiðabliks
Úr fyrri leik liðanna í sumar.
Úr fyrri leik liðanna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjallað var um það á föstudag að stórleik Vals og Breiðabliks, sem fram átti að fara um næstu helgi, hefði verið frestað um óákveðinn tíma.

Þar kom fram að félögin hefðu náð samkomulagi sín á milli um frestun þar sem bæði lið verða í miðju Evrópuverkefni.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er það ekki rétt. Samkvæmt þeim heimildum var það evrópska fótboltasambandið sem sá um, eða varð til þess með leikjaniðurröðun sinni, að leiknum var frestað.

Það sé vegna þess að seinni leikur Drita og Breiðabliks í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni þarf að fara fram á þriðjudegi. Drita, sem er frá Kósóvó, spilar heimaleik sinn á Zahir Pajaziti í Podujevo. Það er sami leikvangur og KF Llapi spilar sína heimaleiki á og Llapi spilar á vellinum annan fimmtudag.

Því verða einungis fimm dagar milli fyrri leiksins og seinni leiksins í einvígi Drita og Breiðabliks. Breiðablik átti að mæta Val 28. júlí en það yrði of stuttur tími milli leikja og því varð að fresta þeim leik.

Hvenær leikur Vals og Breiðabliks getur farið fram er óvíst, það fer eftir gengi liðanna í Sambandsdeildinni.

Þar sem leik Fram og Vals var frestað þá lítur út fyrir að Valur spili ekki deildarleik fyrr en í fyrsta lagi þriðjudaginn 6. ágúst en sá leikur verður einnig færður til ef Valur slær St. Mirren út í 2. umferð forkeppninnar.

Breiðablik á hins vegar leik í kvöld gegn KR:
Athugasemdir
banner
banner
banner