Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 21. nóvember 2022 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ekki erfið ákvörðun að fara frá Keflavík - „Var alltaf staðráðinn í að vilja prófa eitthvað nýtt"
Spilar í Svíþjóð á næsta tímabili.
Spilar í Svíþjóð á næsta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Siggi Raggi og Halli eiga mikið hrós skilið hversu miklu þeir náðu úr liðinu
Siggi Raggi og Halli eiga mikið hrós skilið hversu miklu þeir náðu úr liðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á endanum varð það ofan á að ég vildi testa mig erlendis
Á endanum varð það ofan á að ég vildi testa mig erlendis
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Okkur var ekki spáð hærra en 11. sæti á neinum miðlum, en erum svo nálægt því að vera í efri hlutanum
Okkur var ekki spáð hærra en 11. sæti á neinum miðlum, en erum svo nálægt því að vera í efri hlutanum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tufa er þjálfari Öster.
Tufa er þjálfari Öster.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alex Þór Hauksson er leikmaður Öster.
Alex Þór Hauksson er leikmaður Öster.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Þór Sigurgeirsson var í síðustu viku kynntur sem nýr leikmaður sænska félagsins Öster. Rúnar kemur til félagsins frá Keflavík þar sem hann hefur verið síðustu ellefu árin, frá því hann kom mjög ungur frá Víði.

Rúnar er 23 ára vinstri bakvörður sem lék sinn annan A-landsleik fyrr í þessum mánuði. Í sumar kom hann við sögu í 22 deildarleikjum, hefði spilað fleiri leiki ef ekki hefði verið fyrir leikbönn og meiðsli. Fótbolti.net ræddi við Rúnar um félagaskiptin til Svíþjóðar.

„Umboðsmaðurinn minn Bjarki sendi á mig í sumar að Öster hefði mikinn áhuga á mér. Þeir komu síðan á leik hjá mér í sumar og ég var búinn að vita af áhuganum í stuttan tíma áður en þetta var orðið mjög líklegt. Þetta var svo gott sem klárt í september, ég fór svo út í byrjun október og kláraði allt þar." sagði Rúnar.

Öster endaði í þriðja sæti Superettan, næstefstu deildar, á nýliðnu tímabili. Liðið fór í umspil um sæti í Allsvenskan en tapaði í tveggja leikja einvígi og verður áfram í næstefstu deild.

„Auðvitað vonaðist maður til þess að liðið færi upp um deild, en það hefði bara verið bónus. Aðalmarkmiðið er að fara bara beint upp því þessir umspils leikir eru alltaf virkilega erfiðir. Ég myndi ekki segja svekkjandi, kannski smá, auðvitað vill maður spila í efstu deild."

Vill hjálpa liðinu að fara upp í efstu deild
Hjá Öster hittir Rúnar fyrir Álftnesinginn Alex Þór Hauksson og þjálfarann Srdjan Tufegdzic - Tufa. Rúnar ræddi við þá báða áður en hann skrifaði undir.

„Ég átti bara léttar samræður við Alex, um hvernig honum liði og aðstæður og svo framvegis þarna úti. Ég var búinn að tala við Tufa í síma áður en ég fór út að klára dæmið og svo ræddi ég enn meira við hann þegar ég var úti."

Hvað langar Rúnari að afreka hjá Öster?

„Markmið fyrir næsta tímabil er auðvitað að hjálpa liðinu að komast í Allsvenskan svo sjáum við bara til hvað næsta markmið er þegar að það tekst."

Siggi Raggi og Halli eiga mikið hrós skilið
Rúnar var spurður út í tímabilið hjá Keflavík, liðið endaði í 7. sæti Bestu deildarinnar í sumar.

„Aðalmarkmið liðsins var að ná topp 6 sem við rétt náðum ekki. En heilt yfir held ég að Keflvíkingar geti verið sáttir með tímabilið."

„Persónulega fannst mér ég byrja tímabilið alltílæ ekki gott. Ég var ekkert búinn að æfa fótbolta í einhverja tíu mánuði fyrr en fjórum dögum fyrir mót. Þá komst ég loksins að því að ég væri kviðslitinn."


Rúnar spilaði kviðslitinn í fyrstu umferðunum en fór svo í aðgerð í lok maí og var frá í um sex vikur. „Eftir það fannst mér ég enda tímabilið virkilega vel, eins og bara allt liðið. Siggi Raggi og Halli eiga bara mikið hrós skilið hversu miklu þeir náðu úr liðinu, okkur var ekki spáð hærra en 11. sæti á neinum miðlum, en erum svo nálægt því að vera í efri hlutanum."

Var staðráðinn í að prófa nýja hluti - Hefur ekki heyrt aftur frá Sirius
Var ákvörðunin að fara frá Keflavík erfið?

„Nei það var ekkert erfið ákvörðun, ég var alltaf staðráðinn í því að vilja prófa eitthvað nýtt og fá nýjar áskoranir. Ég held að það sé hollt og gott að fara í nýtt umhverfi og prófa sig annars staðar."

Keflvíkingar staðfestu það í sumar að íslensk félög hefðu haft samband og hefðu áhuga á Rúnari. Var líklegt á einhverjum tímapunkti að annað íslenskt félag yrði fyrir valinu?

„Ég tók fund með einhverjum liðum hér á landi og var heillaður af mörgu af þeim fundum, en á endanum varð það ofan á að ég vildi testa mig erlendis."

Sjá einnig:
„Þetta er gæi sem Valur þarf eiginlega að fara alveg 'all-in' í"
Rúnar Þór: Alltaf gaman að fá áhuga frá svona félögum (6. feb '21)

Rúnar segist ekki hafa vitað um áhuga annarra erlendra félaga á sér. Hann var mjög nálægt því að fara til Sirius á síðasta tímabili. Ekkert varð úr því vegna meiðsla sem Rúnar glímdi lengi við. Hefur Sirius fylgst áfram með Rúnari frá þeim tíma?

„Nei, ég hef ekkert heyrt frá þeim síðan ég féll á læknisskoðuninni í fyrra."

Fékk níu spjöld í fjórtán leikjum
Rúnar fór tvisvar í leikbann vegna fjölda gulra spjalda í sumar. Hann fékk níu gul spjöld í fyrstu fjórtán leikjunum sem hann spilaði í deildinni. Af hverju fékk hann svona mörg spjöld?

„Haha, þú verður að ræða það við dómarana. En ég fór að haga mér í lokin og fékk ekki spjald í síðustu átta leikjunum."

Sjá einnig:
Skaut aðeins á Rúnar - Fengið sjö spjöld í ellefu leikjum

Vildi fá nýjar áskoranir og nýtt umhverfi
Nokkrir lykilmenn eru farnir frá Keflavík frá því í sumar. Rúnar er farinn, Sindri Kristinn Ólafsson er farinn, Patrik Johannesen er á förum, Adam Ægir Pálsson er farinn aftur í Víking eftir lánsdvöl í Keflavík og þá er óvissa með Joey Gibbs og Dani Hatakka. Af hverju eru svona margir öflugir leikmenn að fara frá Keflavík núna?

„Nú get ég bara talað fyrir mig og það sem ég vildi gera var að fá nýjar áskoranir og nýtt umhverfi."

Gaman að gera það sem maður elskar í góðum félagsskap
Að lokum, Rúnar spilaði sinn annan landsleik fyrr í þessum mánuði, hann var í byrjunarliðinu gegn Sádí-Arabíu og á bekknum gegn Suður-Kóreu. Hvernig var að taka þátt í þessu landsliðsverkefni?

„Þetta var mjög gaman og skemmtileg lífsreynsla að koma til þessara landa og fá að gera það sem maður elskar í góðum félagsskap."

Var þetta öðruvísi en að spila fyrsta landsleikinn (gegn Mexíkó í maí í fyrra)?

„Að mörgu leyti öðruvísi en maður fyllist allur af stolti að klæðast íslensku treyjunni, sama hvaða liði maður er að spila á móti eða hversu margir áhorfendur eru," sagði Rúnar.
Athugasemdir
banner
banner