Franski sóknarmaðurinn Wilson Isidor gæti verið á förum frá nýliðum Sunderland í þessum glugga en hann hefur verið orðaður við Everton og Nottingham Forest undanfarnar vikur.
Isidor, sem er 25 ára gamall, er markahæsti maður Sunderland í ensku úrvalsdeildinni ásamt Brian Brobbey.
Hann er þó kominn í aukahlutverk hjá Sunderland núna og Brobbey orðinn fastamaður í framlínunni enda hefur Isidor ekki skorað mark síðan í október.
Isidor skoraði fimmtán mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð er Sunderland vann sér sæti í ensku úrvalsdeildina. Hann gerði meðal annars mark í fyrri undanúrslitaleiknum gegn Coventry í umspilinu.
Everton og Nottingham Forest hafa mikinn áhuga á Isidor og þá hafa félög erlendis frá einnig sýnt honum áhuga en ekkert formlegt tilboð komið á borðið.
Frakkinn er samningsbundinn Sunderland til 2028 en enskir miðlar hafa talað um að hann sé metinn á 25 milljónir punda.
Athugasemdir


