Elvar Geir Magnússon skrifar frá Slóveníu
Fjölmiðlar í Slóveníu tala réttilega um leikinn í kvöld gegn Íslandi sem algjöran lykilleik fyrir liðið upp á framhaldið í riðlinum. Ekkert annað en sigur komi til greina.
Þjálfarinn Srecko Katanec er enn í leit að besta leikkerfinu fyrir liðið en gegn Bosníu lék Slóvenía með þrjá miðverði í 5-3-2 leikkerfi.
Á æfingu á miðvikudag reyndi Katanec þrjú leikkerfi samkvæmt slóvenskum fjölmiðlum; 4-3-2-1, 4-4-2 og 3-2-2-1-2.
Á heimasíðu sem fjallar um slóvenskan fótbolta er stillt upp líklegum byrjunarliðum og má sjá hér til hliðar hvernig spáð er að lið heimamanna verði skipað.
Samkvæmt því verða Milivoje Novakovic og Tim Matavz saman í fremstu víglínu og með Zlatan Ljubijankic í holunni þar fyrir aftan. Novakovic og Ljubijankic leika báðir í japönsku deildinni en Matavz sem skorað hefur 13 mörk fyrir PSV Eindhoven í hollensku deildinni í vetur er hættulegasti sóknarmaður Slóvena.
Samir Handanovic, markvörður Inter, verður líklega áfram í markinu þrátt fyrir slæm mistök hans í síðustu landsleikjum. Bakverðirnir eru báðir mjög sóndjarfir. Miso Brecko sem leikur með Köln í Þýskalandi hægra megin en þar er á ferð virkilega öflugur leikmaður. Vinstra megin Bojan Jokic sem leikur með Chievo á Ítalíu.
Í þessu líklega byrjunarliði má líka finna miðjumennina Jasmin Kurtic leikmann Palermo og Rene Khrin hjá Bologna,
Sama síða stillir upp líklegu byrjunarliði Íslands og má sjá það hér að neðan. Rétt eins og í hugsanlegu byrjunarliði sem við birtum í vikunni er spáð að Kolbeinn Sigþórsson og Alfreð Finnbogason muni í fyrsta sinn vera saman í byrjunarliðinu.
Einnig spá þeir sömu vörn en miðjan er öðruvísi skipuð. Þar er búist við því að Eiður Smári Guðjohnsen byrji á bekknum og Emil Hallfreðsson verði á miðjunni með Aroni Einari Gunnarssyni. Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson á köntunum.
Með svona marga öfluga leikmenn innan raða okkar liðs má réttilega gera væntingar fyrir leikinn í kvöld en þeim ber þó að stilla í hóf. Slóvenar eru með marga öfluga leikmenn og þar að auki á heimavelli. Eins og kom fram í frétt sem birtist fyrr í morgun hafa útileikir ekki verið að gefa íslenska landsliðinu mikið í gegnum tíðina.
Sjá einnig:
Vel undirbúnir fyrir bardagann
Svona spái ég byrjunarliðinu
Athugasemdir