
Aldís Guðlaugsdóttir, markvörður FH, er því miður með slitið krossband og mun ekki spila meira í sumar. Hún sleit krossband í leik gegn Þrótti á dögunum en kláraði samt sem áður leikinn með miklum sóma.
Sandra Sigurðardóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður, tekur hanskana fram af hillunni og hjálpar FH í neyð.
Sandra Sigurðardóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður, tekur hanskana fram af hillunni og hjálpar FH í neyð.
„Þetta er alveg glatað," segir Guðni Eiríksson, þjálfari FH, um meiðsli Aldísar.
„Hún tekur létta stefnubreytingu inn í teig þar sem hún heldur á boltanum og takkarnir eru fastir í þurru gervigrasi. Hún finnur bara smell. Hún kláraði leikinn með slitið krossband. Hún náði að verja helvíti vel í tvígang."
„Þetta er þvílíkt högg fyrir okkur en líka fyrir hana þar sem hún hefur spilað frábærlega. Hún kom af fítonskrafti inn í tímabilið og þetta er alveg ömurlegt."
Sandra, sem var lengi vel aðalmarkvörður í landsliðinu, lék síðast fótbolta 2023 þegar hún spilaði með Val og Grindavík. Hún ætlar að hjálpa FH allavega fram að EM-pásu og verður í markinu gegn Breiðabliki á morgun. FH var ekki með varamarkvörð þar sem þær eru með ungan markvörð á láni í ÍH.
„Þegar við áttuðum okkur á alvarleika málsins þá fórum við að vinna í okkar málum. Það er ágætt að maður þekkir Söndru og hún bjargar okkur," sagði Guðni. „Hún var sem betur fer opin fyrir þessu og ætlar að hjálpa okkur. Við fáum hana á neyðarláni því við erum ekki með varamarkvörð."
Ekki eins alvarlegt með Örnu
Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, meiddist líka gegn Þrótti en sem betur fer eru meiðsli hennar ekki eins alvarleg.
„Þetta lítur betur út en áhorfðist. Þetta er ekki eins alvarlegt og við héldum. Hún skokkaði og hjólaði í gær. Við ætlum að prófa hana í dag. Hún verður vonandi tiltölulega fljót að ná sér af þessu," sagði Guðni.
FH hefur farið vel af stað á tímabilinu og er með tólf stig eftir sex leiki. Þær sitja í þriðja sæti Bestu deildarinnar.
Athugasemdir