Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 23. október 2021 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Valtaði yfir átrúnaðargoð sitt - „Alvöru íslensk stoðsending"
Þetta var virkilega skemmtilegt - Alfons fagnar.
Þetta var virkilega skemmtilegt - Alfons fagnar.
Mynd: EPA
Mourinho reiður á meðan Alfons og félagar gleðjast í bakgrunni.
Mourinho reiður á meðan Alfons og félagar gleðjast í bakgrunni.
Mynd: Getty Images
Alfons lék gegn Liechtenstein fyrr í þessum mánuði.
Alfons lék gegn Liechtenstein fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alvöru íslensk stoðsending.
Alvöru íslensk stoðsending.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Í stuttu máli var þetta bara geggjað, ógeðslega gaman," segir Alfons Sampsted við Fótbolta.net

Alfons er leikmaður Bodö/Glimt sem valtaði yfir Roma, 6-1, í Sambandsdeildinni á fimmtudag. Alfons lék allan leikinn og lagði upp þriðja mark heimamanna í leiknum.

Héldu kúlinu og þorðu að halda boltanum
„Þetta var einn af þeim dögum þar sem allt sem við gerðum flaut alveg hrikalega vel og eiginlega allt sem við vildum gera gekk upp. Þetta var virkilega skemmtilegt."

„Nei, það kom okkur í sjálfu sér ekkert á óvart í leiknum. Við vissum að þeir ættu það til að reyna að pressa til að byrja með en ef maður heldur kúlinu og þorir að halda boltanum aðeins þá falla þeir aftar. Það er það sem gerðist í leiknum, um leið og við rúlluðum boltanum fram og til baka þá samþykktu þeir að þeir myndu verjast aftarlega."

„Sá hluti kom okkur ekki á óvart en úrslitin og hversu vel við náðum að stjórna leiknum kemur náttúrulega að sjálfsögðu á óvart."


Frammistöðutoppurinn á tímabilinu
Var þetta ykkar besti leikur á tímabilinu?

„Okkar kerfi gekk upp að nokkurn veginn öllu leyti. Hingað til á tímabilinu þá má segja að þetta hafi verið frammistöðutoppurinn á tímabilinu."

Nýttu sér reynslu úr erfiðum leikjum
Var sérstök upplifun að mæta Roma á heimavelli?

„Það var gaman að fá Roma upp hingað til Bodö, þá vissum við að leikurinn yrði aðeins meira á okkar forsendum. Leikurinn yrði í aðstæðum sem við þekkjum, höfum spilað oft á vellinum og svo tókum við reynsluna úr leikjunum á móti Legia Varsjá í ár, okkar erfiðasta andstæðingi í umspilinu, og leikjunum gegn AC Milan í fyrra. Við náðum að nýta þá reynslu og allt í kringum leikinn lá mjög vel fyrir okkur."

Ótrúlega gaman að mæta átrúnaðargoðinu
Var gaman að mæta liði undir stjórn Jose Mourinho?

„Já, hann hefur verið eitt af átrúnaðargoðunum síðan ég var lítill. Ég er Chelsea maður og fylgdist mikið með honum þar. Það var ótrúlega gaman að vera á móti goðsögn eins og hann er."

Ekki eins og við höfum spilað allan leikinn gegn einhverju varaliði
Þegar þú sérð liðið sem Roma stillir upp, horfiru eitthvað í það að þeir séu ekki að stilla upp sínu besta liði?

„Ég hef trú á því að þeir mæti í leikinn með þá trú að ná í stig. Ef þeir stilla upp þessu liði þá hlýtur það að vera lið sem þeir hafa trú á. Í seinni hálfleik þá byrja þeir að skipta inn á sínum bestu mönnum og þetta er ekki eins og við höfum spilað 90 mínútur á móti einhverju varaliði þótt þeir hafi byrjað með marga leikmenn sem venjulega eru ekki í byrjunarliðinu."

Alvöru íslensk stoðsending
Þú áttir líka ansi öfluga stoðsendingu.

„Þeir hérna úti vilja meina að þetta sé alvöru íslensk stoðsending," segir Alfons og hlær. „Að það hafi verið barátta í þessu og svona. Maður var búinn að taka nokkur hlaup upp kantinn og á endanum kemst maður í boltann og geggjað að hitta samherja sem svo kláraði þetta."

Góður útgangspunktur fyrir næsta leik
Hvað gefur þessi sigur ykkur í riðlinum? Þið eruð núna með sjö stig eftir þrjá leiki.

„Við eigum Roma aftur eftir tvær vikur í Róm. Bara það að við höfum náð að taka þá hérna heima gefur okkur þá trú á verkefninu að við getum tekið þá líka úti. Það er góður útgangspunktur fyrir næsta leik að maður komi ekki inn með brotið sjálfstraust eða einhverja óvissu hvað við getum gert. Núna vitum við að við getum staðið í þeim og það þýðir ekkert annað en að mæta með okkar plan og fylgja því."

Tekið mjög góð skref sem lið
Liðið er á góðu skriði í deildinni, fjórir sigrar í röð og á toppnum í deildinni. Finnst þér takturinn í liðinu núna svipa til taktsins sem liðið náði á síðasta tímabili?

„Já. Við byrjuðum tímabilið í ár mjög vel en síðan missum við nokkra leikmenn í meiðsli í júní/júlí og þá var smá niðurtúr. Í síðustu leikjum finnst mér við sem lið hafa tekið mjög góð skref. Ég veit ekki hvernig maður á að lýsa því en sem lið þá er orðið aðeins djöfullegra að mæta okkur. Við erum orðnir betri í því að ná í úrslit með því að spila okkar leik. Við höfum náð að taka skref upp á við í okkar leik, getum orðað þetta þannig."

Einbeittur að því að fagna með eigin stuðningsmönnum
Það er atvik eftir leikinn þar sem fyrirliði Roma reynir að gefa stuðningsmönnum treyjuna sína. Stuðningsmenn vildu ekki fá treyjuna. Verður þú vitni að þessu?

„Nei, ég sá að þeir voru eitthvað að spjalla við stuðningsmennina en varð ekkert vitni að þessu. Ég var aðeins of einbeittur að því að labba að okkar eigin stuðningsmönnum og fagna með þeim."

„Ég las bara eitthvað um þetta eftir leikinn, tók ekkert eftir þessu sjálfur,"
segir Alfons að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner