Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 23. janúar 2020 13:44
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gul viðvörun - Út í óvissuna? - í Laugardal!
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Snjó mokað af Laugardalsvelli í október árið 2008.
Snjó mokað af Laugardalsvelli í október árið 2008.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ástandið á Laugardalsvellinum getur verið verra en þetta, eftir veturinn - frost í jörðu. Þessi mynd var tekin um haust, fyrir leik gegn Króatíu 2013..
Ástandið á Laugardalsvellinum getur verið verra en þetta, eftir veturinn - frost í jörðu. Þessi mynd var tekin um haust, fyrir leik gegn Króatíu 2013..
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Forsíða Morgunblaðsins 27. mars 2015, sýnir að ekki hafi verið leikin knattspyrna á Laugardalsvellinum daginn áður, 26. mars 2015.
Forsíða Morgunblaðsins 27. mars 2015, sýnir að ekki hafi verið leikin knattspyrna á Laugardalsvellinum daginn áður, 26. mars 2015.
Mynd: Morgunblaðið
Frá snjómokstri í Laugardal.
Frá snjómokstri í Laugardal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar ég leit út um gluggann í morgun (23. janúar), hugsaði ég; Nú, Jæja – tveir mánuðir eru þar til að leika á stórleik á grasi á Laugardalsvellinum. Um vetur – 26 dögum fyrir Sumardaginn fyrsta.

Þegar allra veðra er von, freistast menn til að tefla á tvær hættur og stefna út í óvissuna. Þá gleymist oft að þeir búa á Íslandi, þar sem vetur konungur ræður ríkjum og getur verið erfiður og breytt um ham; eins og hendi sé veifað. Þá gæti verið sett á Gul veðurviðvörun, eða jafnvel appelsínugul.

Að umspilsleikur Íslands og Rúmeníu í EM fari fram á Laugardalsvellinum 26. mars 2020 snýst um meira en grænan keppnisflöt. Miklu meira!

Það verður að ákveða með margra vikna fyrirvara, hvar leikur í EM fari fram; í hvaða borg og á hvaða velli. Að breyta um leikstað á elleftu stundu, verður erfitt og kostar mikla fyrirhöfn.

Forráðamenn keppnisliða þurfa að hafa góðan tíma til að fara á keppnisstað til að velja sér hótel og kanna aðstæður. Það þarf einnig að gera í sambandi við dómara, eftirlitsmanna, starfsmanna Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, og fjölmiðlamanna. Já, og stuðningsmanna sem vilja fylgja liði sínu.

Að flytja leik á milli landa með stuttum fyrirvara, skapar mikla erfiðleika fyrir alla. Hvert á að fara með leikinn? Það þarf að fá völl, finna hótel, æfingaaðstöðu, öryggisgæslu og margt annað. Tryggja flug á milli staða, ef það fellur ekki niður.

Ég snéri klukkunni fimm ár aftur í tímann, til ársins 2015, til að kanna hvernig veður var í Reykjavík 26. mars, sem er keppnisdagur í ár. Á forsíðu Morgunblaðsins 27. mars mátti lesa undir forsíðumynd: „Dimm él gerði í Reykjavík í gærkvöldi. Par sem leiddist hönd í hönd á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar gekk upp í veðrið enda ekkert annað að gera.

Veðurstofan spáði suðvestan 8-15 m/s vindi á landinu í dag og éljum sunnan- og vestantil. Hvassast verður við ströndina.“ Já, svona var veðrið í Laugardalnum fyrir fimm árum.

Dúkur yfir keppnisflöt Laugardalsvallarins dugar ekki ef snjóar. Það þarf þá að að fella hann niður, þannig að hann liggur undir snjó á vellinum, sem þarf síðan að moka af.

Það er ljóst að það er erfiðra að lífga grasflöt upp og gera hann grænan á vorin, eftir vetrarfrost. Miklu erfiðra en að halda grasfleti grænum á haustin, eftir sól og sumaryl. Leikur fer ekki fram í snjókomu og snjóbyl.

Þó svo að hægt sé að halda keppnisfletinum auðum með upphitun, þá getur annað vandamál sett strik í reikninginn. Það er öryggi áhorfenda. Það öryggi er veikt ef snjór og hálka er á áhorfendapöllunum. Áhorfendapallar eru ekki upphitaðir, þannig að slysahætta getur orðið mikil.

Eftirlitsmenn og öryggisverðir geta hæglega stöðvað að leikur fari fram, ef öryggi áhorfenda er ekki nægilegt. Það hefur gertst á leikjum í Evrópukeppnum.

Þegar mikil slysahætta er, verður kannað hvort bráðamóttökur á sjúkrahúsum eru í stakk búnar til að taka við fjölda fólks, sem getur orðið fyrir óhappi á stuttum tíma vegna hálku?

Hvað þá með allar aðstæður í kringum völlinn; í slæmu veðri og ófærð? Að mörgu þarf að hyggja við undirbúning umspilsleiks í Evrópukeppni landsliða 26. mars 2020!
Athugasemdir
banner
banner
banner