Kolbeinn Þórðarson skrifaði á dögunum undir nýjan þriggja ára samning við sænska félagið IFK Gautaborg, en hann og félagið eru í skýjunum með að hafa gengið frá samningnum.
Blikinn æfði með Gautaborg í sumar eftir að hafa yfirgefið belgíska B-deildarfélagið Lommel.
Svíarnir voru afar ánægðir með framlag hans á æfingum og var ákveðið að gera stuttan samning, en hann hefur staðið sig frábærlega, byrjað sjö leiki og leikið mikilvæga rullu hjá þessu sögufræga félagi.
Um helgina var síðan gengið frá nýjum þriggja ára samningi og var Kolbeinn sérstaklega ánægður, enda hefur hann bætt leik sinn mikið frá því hann kom til félagsins.
„Ég er ótrúlega glaður. Þetta er nákvæmlega það sem ég vildi og það sem klúbburinn vildi, þannig ég er ótrúlega glaður yfir því,“ sagði Kolbeinn við Fotbollskanalen.
„Ég og fjölskyldan erum hrifin af Gautaborg. Kærastan er glöð hér og við elskum lífið í borginni. Nú er það bara að læra sænskuna betur og þá er allt í toppstandi.“
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég bý á svona stórum stað. Ég hef alltaf verið í minni bæjarfélögum. Það er meira og minna allt til alls hér. Veitingastaðirnir eru frábærir og fólkið vinalegt. Liseberg er stórkostlegt og alltaf hægt að finna sér eitthvað til að gera.“
„Mér finnst ég vera að bæta mig hér, bæði sem leikmaður og sem leiðtogi í liðinu. Ég hef lært margt og þetta hefur gengið mjög vel fyrstu mánuðina. Mér finnst ég stöðugt vera að bæta mig og verða að betri leikmanni,“ sagði Kolbeinn.
22.10.2023 20:17
Kolbeinn strax kominn með nýjan samning í Gautaborg (Staðfest)
Þjálfarinn býst við að Kolbeinn fari að banka á dyrnar hjá landsliðinu
Jens Askou, þjálfari Gautaborgar, er ánægður með framlag Kolbeins til þess og býst við að Åge Hareide, þjálfari landsliðsins, hljóti að fara skoða Kolbein betur.
Kolbeinn á aðeins 1 A-landsleik að baki, en hann fékk nokkrar mínútur í 2-2 jafnteflinu gegn Póllandi í vináttulandsleik í júní fyrir tveimur árum.
„Þetta er gríðarlega jákvætt, bæði fyrir hann og okkur. Þetta var draumurinn og markmiðið. Hann sýndi okkur hvað hann hafði fram að færa áður en hann skrifaði undir samninginn. Við gerðum stuttan samning og það sást fljótlega eftir það að hann er frábær leikmaður og þroskuð manneskja sem vill gera eitthvað með ferilinn.“
„Þetta er frábær náungi sem tók sér ekki langan tíma að verða að mikilvægum leikmanni fyrir okkur, bæði innan sem utan vallar. Ég er hæstánægður með að hann verði hér til langs tíma.“
„Hann er bara 23 ára gamall, þannig þetta er klárlega leikmaður sem A-landsliðið mun fylgjast með ef hann heldur áfram á sömu braut. Af hverju ættu þeir ekki að gera það? Þetta er ofurspilara sem við höfum fengið til okkar,“ sagði þjálfarinn í lokin.
Athugasemdir