Miðjumaðurinn Kolbeinn Þórðarson skipti frá Lommel SK yfir til Göteborg í ágúst og fór beint inn í byrjunarliðið hjá sænska félaginu. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel og er strax búinn að gera nýjan samning við félagið.
Kolbeinn er 23 ára gamall og hefur hrifið þjálfarateymið í Gautaborg upp úr skónum. Það tók hann rétt rúma tvo mánuði frá komu sinni til félagsins að tryggja sér nýjan samning, sem gildir næstu þrjú árin.
Kolbeinn, sem er uppalinn hjá Breiðabliki, er mikilvægur hlekkur á miðjunni í Gautaborg eftir að hafa spilað um 90 keppnisleiki á fjórum árum hjá Lommel í Belgíu. Hann á einn A-landsleik að baki fyrir Íslands hönd en þar áður var hann lykilmaður í sterku U21 landsliði.
Kolbeinn er einn af tveimur Íslendingum í leikmannahópi Göteborg þar sem Adam Ingi Benediktsson er varamarkvörður félagsins.
Göteborg er í fallbaráttu sænsku deildarinnar en situr þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið sem stendur, með einn leik til góða. Það eru aðeins þrjár umferðir eftir af deildartímabilinu í Svíþjóð en Göteborg á fjóra leiki eftir.
Athugasemdir