Tómas Þór Þórðarson og Elvar Geir Magnússon ræddu ummæli Óskars í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki ánægður með eldræðu Tómasar Þórs Þórðarsonar í útvarpsþætti Fótbolta.net um helgina en þá voru ummæli Óskars eftir 2-0 sigurinn á Val rædd.
Eftir leikinn gegn Val bað Óskar fjölmiðla vinsamlegast um að slaka á í umræðunni um Stefán Inga Sigurðarson og hætta að tala hann upp.
Stefán kom inná sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum deildarinnar og skoraði í báðum. Þá átti hann frábært undirbúningstímabil þar sem hann raðaði inn mörkunum.
Tómas Þór og Elvar Geir Magnússon ræddu þessi ummæli Óskars í útvarpsþættinum á laugardag en Tómas baðst afsökunar á að hafa talað Stefán upp í þættinum, þó með vel áþreifanlegum kaldhæðnistón.
Bjó hann þá til sérstakt lið af leikmönnum sem gaman væri að fylgjast með í sumar, án þess að setja þó of mikla pressu á þá leikmenn og valdi hann alla reyndustu leikmenn deildarinnar.
Sjá einnig:
„Í ljósi þess vill maður biðjast formlega afsökunar á að hafa sett þessa pressu á Stefán“
Óskar segir að þessi eldræða Tómasar hafi ekki verið honum til sóma.
„Mér fannst hún yfirdrifin, skrítin og helst honum til vansa. Ég skil ekki hvert hann er að fara með þetta. Eina það sem mér gekk til var að við erum með leikmann sem er vissulega 22 ára, en hann er að stíga sín fyrstu skref í efstu deild. Hann er búinn að vera þrjú og hálft ár í bandarískum háskóla og missa af stórum hluta tímabilsins hjá okkur. Hann hefur aldrei klárað tímabil og aldrei byrjað tímabil.“
„Eina sem ég var að biðja um var að menn myndu draga djúpt andann. Stefán er feikilega efnilegur leikmaður og ef Tómas vill halda þessu áfram þá heldur hann þessu bara áfram. Það er ekkert sem ég get gert í, en eina sem ég bað um var að menn myndu slaka á svo er það þeirra að ákveða hvað þeir gera. Ég ætla ekki að segja þeim hvað þeir gera, en hins vegar finnst mér skrítið að Tómas skuli í raun vera leggja lykkju á leið sína til þess að halda eldræðu um þetta mál og mér fannst það honum ekki vera til sóma,“ sagði Óskar eftir leikinn gegn ÍBV í gær.
Athugasemdir