Þremur leikjum kvöldsins er lokið í Bestu deild kvenna þar sem Valur og Þór/KA unnu sigra á útivelli á meðan Stjarnan sigraði FH í uppbótartíma.
Lestu um leikinn: Tindastóll 1 - 4 Valur
Valur heimsótti Tindastól til Sauðárkróks og var staðan jöfn 1-1 eftir fjörugan fyrri hálfleik þar sem Jasmín Erla Ingadóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir skoruðu mörkin.
Valur tók algjöra stjórn á leiknum er tók að líða á síðari hálfleikinn og skóp góðan sigur. Jasmín skoraði annað mark sitt í leiknum og kláraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir dæmið með tvennu á fjórum mínútum. Lokatölur 1-4 fyrir Val sem er á toppi Bestu deildarinnar með 39 stig eftir 14 umferðir.
Tindastóll er áfram í fallbaráttu með 11 stig, tveimur stigum fyrir ofan botnlið Keflavíkur sem tapaði einnig á heimavelli í dag.
Tindastóll 1 - 4 Valur
0-1 Jasmín Erla Ingadóttir ('18)
1-1 Elísa Bríet Björnsdóttir ('27)
1-2 Jasmín Erla Ingadóttir ('64)
1-3 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('75)
1-4 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('79)
Keflavík fékk Þór/KA í heimsókn og var staðan markalaus eftir gríðarlega fjörugan fyrri hálfleik þar sem hvorugu liði tókst þó að skora.
Lestu um leikinn: Keflavík 0 - 1 Þór/KA
Akureyringar voru sterkari í síðari hálfleik og skoraði Hulda Ósk Jónsdóttir það sem reyndist vera eina mark leiksins í 0-1 sigri.
Hrikalega sárt tap fyrir Keflvíkinga sem fengu góð færi gegn sterkum andstæðingum, en tókst ekki að skora.
Þór/KA er áfram í þriðja sæti eftir þennan sigur, með 27 stig eftir 14 umferðir.
Keflavík 0 - 1 Þór/KA
0-1 Hulda Ósk Jónsdóttir ('58)
Að lokum mættust FH og Stjarnan í Hafnarfirði og var staðan markalaus eftir opinn og skemmtilegan fyrri hálfleik.
Lestu um leikinn: FH 1 - 2 Stjarnan
Mörkin létu sjá sig í síðari hálfleik, þar sem Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir tók forystuna fyrir Stjörnuna áður en Selma Sól Sigurjónsdóttir jafnaði fyrir heimakonur.
Staðan hélst jöfn 1-1 allt þar til í uppbótartíma þegar bæði lið sóttu eins og þau mögulega gátu í leit að sigurmarki. Það voru Stjörnukonur sem náðu að pota inn sigurmarkinu, þegar Andrea Mist Pálsdóttir skoraði eftir hraða sókn á 92. mínútu.
Lokatölur 1-2 fyrir Stjörnuna sem hoppar upp úr neðsta hluta Bestu deildarinnar og er með 16 stig úr 14 umferðum, þremur stigum á eftir FH.
FH 1 - 2 Stjarnan
0-1 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('63)
1-1 Selma Sól Sigurjónsdóttir ('77)
1-2 Andrea Mist Pálsdóttir ('92)
Athugasemdir