Eftir frábæra frammistöðu með FC Kaupmannahöfn í danska boltanum er Hákon Arnar Haraldsson eftirsóttur. FCK hefur hafnað stóru tilboði frá franska félaginu Lille í þennan tvítuga sóknarmiðjumann og þá hefur hann verið orðaður við Red Bull Salzburg
Ekstra Bladet segir að tilboðið frá Lille hafi verið um 15 milljónir evra en einnig hefur heyrst að það hafi verið í kringum 10 milljónir.
Ekstra Bladet segir að tilboðið frá Lille hafi verið um 15 milljónir evra en einnig hefur heyrst að það hafi verið í kringum 10 milljónir.
„Ég veit af áhuga á mér, það var áhugi í janúar og hann er líka núna. FCK gaf út að það eru komin tilboð og ég veit af því. Ég hef ekkert heyrt frá þeim hvernig staðan er á þessu. Það er allavega mikill áhugi og sjáum til hvað gerist í sumar," segir Hákon í samtali við Fótbolta.net.
Þegar Skagamaðurinn er spurður að því hver sé hans vilji í þessum málum leggur Hákon áherslu á að hann þurfi að velja vel.
„Það er stóra spurningin. Mér líður mjög vel hjá FCK. Auðvitað skoðar maður alla sína möguleika, þetta þarf að vera hárrétta skrefið og maður þarf að skoða hvort þetta henti manni. Ég skoða alla möguleika og við þurfum að sjá hvernig þetta fer."
Lille hafnaði í fimmta sæti frönsku deildarinnar og Salzburg er austurrískur meistari og með áskrift að Meistaradeildarsæti.
„Þetta eru hlutir sem þarf að hugsa út í, hversu stórt skref maður er til í að taka á réttum tímapunkti. Ég hugsa mikið út í hvort maður sé klár í stóra stökkið eða hvort best sé að taka milliskref," segir Hákon.
FCK tekur ekki hvaða tilboði sem er en Hákon er með samning til 2027. Þegar hann var seldur til FCK frá ÍA fyrir fjórum árum var samið um að ÍA fengi prósentu af næstu sölu Hákons. Sögusagnir hafa verið um 15-20% en það yrði gríðarleg búbót fyrir félagið.
„Þeir segja við mig að tilboðið verði að vera mjög gott. Verðmiðinn er nokkuð hár og ekkert öll félög sem geta farið í það. Ég veit ekki hversu mikið ÍA fær en það er allavega einhver prósenta. Vonandi er það há summa sem þeir geta svo nýtt næstu ár," segir Hákon.
Að lokum var Hákon spurður út í landsliðið og frammistöðuna í síðasta glugga. Þrátt fyrir tvo tapleiki þótti liðið standa sig vel en Hákon kom inn af bekknum í báðum leikjum.
„Mér fannst liðið spila mjög vel á stórum köflum í báðum leikjunum og pirrandi að ná ekki í einhver stig. Við áttum skilið að fá eitthvað úr báðum leikjum. Persónulega séð hefði ég viljað spila meira en þetta er nýr þjálfari og hann vildi leita í reynsluna sem er skiljanlegt. Ég þarf bara að halda áfram og sjá hvað gerist í næsta glugga," segir Hákon að lokum.
Athugasemdir