Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   fim 25. júlí 2024 10:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Af kanti í djúpan á miðju - „Líklegt að þetta sé hans framtíðarstaða"
Kjartan Már Kjartansson.
Kjartan Már Kjartansson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kjartan Már er fæddur árið 2006.
Kjartan Már er fæddur árið 2006.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan fær gula spjaldið.
Kjartan fær gula spjaldið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Már Kjartansson, ungur leikmaður Stjörnunnar, hefur vakið athygli í nýju hlutverki síðustu vikur.

Kjartan lenti í smá brekku í aðdraganda tímabilsins og spilaði lítið framan af móti en hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu fimm leikjum. Þar á meðal eru báðir leikirnir gegn Linfield í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Kjartan er fjölhæfur leikmaður en hann hefur spilað sem djúpur miðjumaður í síðustu leikjum.

„Ég held að það séu ekki margir sem átti sig á því að hann hefur nánast aldrei spilað sem djúpur á miðju. Hann kemur svo beint inn í byrjunarliðið hjá okkur og hefur leyst það ótrúlega vel. Hann á eftir að bæta sig mikið sóknarlega í litlum hreyfingum. En hann hefur gefið liðinu mikið," sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, á fréttamannafundi í gær.

„Hann hefur margt. Margir leita í styrk í þessari stöðu. Hann hefur verið kantmaður hjá okkur. Við viljum að allir okkar leikmenn séu agressívir og láti finna fyrir sér, en við viljum að djúpi miðjumaðurinn geti spilað fótbolta. Það er eitt það mikilvægasta að öftustu menn og djúpi miðjumaðurinn geti komið boltanum fram á við og líði vel undir pressu. Hann hentar í það að öllu leyti. Hann á bara eftir að verða betri."

Hann var mest notaður sem kantmaður á síðasta tímabili en að vera inn á miðsvæðinu er framtíðarstaða fyrir hann.

„Mér finnst það mjög líklegt að þetta sé hans framtíðarstaða. Það var alltaf pælingin eftir síðasta tímabil að færa hann meira inn á miðjuna. Hann spilaði þessa stöðu aðeins í U17 landsliðinu og þeir voru mjög ánægðir með hann þá. Ég held að hann hafi ekki sprengjukraftinn og snerpuna til að lenda sem kantmaður erlendis. Ef hann ætlar að komast út og taka næstu skref þá held ég að þetta sé mjög áhugaverð staða fyrir hann," sagði Jökull jafnframt.

Hann er öðruvísi
Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, sat einnig fyrir svörum á fundinum. Hann segir Kjartan að mörgu leyti öðruvísi en aðra unga leikmenn Stjörnunnar.

„Kjartan var djúpur á miðju í seinasta leik og spilar bara eins og kóngur. Þeir í kringum hann líka. Kannski voru þeir stressaðir en það sást samt ekki á þeim. Það er allt í fína. Þeir fá dýrmæta reynslu úr þessu. Vonandi halda þeir áfram að spila svona," sagði Guðmundur.

„Það hef­ur verið gam­an að spila með Kjart­ani. Margir af ungu strákunum í liðinu eru ekki mjög agressívar týpur. Hann er öðruvísi. Hann læt­ur finna fyr­ir sér á æf­ing­um og ríf­ur kjaft. Hann hef­ur vaxið gríðarlega sem er virki­lega gam­an að sjá. Hann kom mest inn á kantinn í fyrra en það er annað hlutverk núna. Hann hefur tæklað það helvíti vel."

Kjartan spilaði sína fyrstu leiki með meistaraflokki sumarið 2022. Hann er U19 landsliðsmaður sem á alls að baki 37 keppnisleiki fyrir Stjörnuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner