mán 26. október 2020 12:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Arnar Sveinn: Samkvæmt FIFPro þurfa leikmenn þrjár vikur í undirbúning
Arnar Sveinn leikur fyrir Fylki.
Arnar Sveinn leikur fyrir Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands, hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu en hann gagnrýndi KSÍ á dögunum og sagði sambandið ekki hlusta á leikmenn í sínum ákvörðunum.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði að það hefðu verið vonbrigði að lesa ummæli Arnars.

„Ég og Guðni erum ágætis félagar og það sló mig sömuleiðis að hann hafi svarað þessu svona í viðtalinu. Það er margt sem bendir til þess að samskipti við leikmenn eigi ekki að aukast," segir Arnar í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

Lið á höfuðborgarsvæðinu mega ekki æfa með eðlilegum hætti og fá ekki marga daga til að búa sig undir það að mótið fari aftur af stað.

„Ég segi að ákvörðun sé tekin án þess að hagur eða heilsa leikmanna séu höfð að sjónarmiði. Talað er um að lið megi æfa á fullu frá og með 3. nóvember og svo sé leikið 8. nóvember. Alþjóðlegu leikmannasamtökin, FIFPro, hafa gefið út reglugerð um að þegar nokkrar vikur komi í pásu þurfi leikmenn þrjár vikur af æfingum til að gera sig klára í 90 mínútna fótboltaleik," segir Arnar.

Segir að reynt sé að gera lítið úr könnun meðal leikmanna
Arnar er einnig ósáttur við umfjöllun um Leikmannasamtökin í Pepsi Max-Stúkunni á Stöð 2 Sport. Þar var talað um að fáir leikmenn væru í samtökunum og rætt um vægi þeirra.

„Ég hefði alveg gaman að því að þeir hafi farið út í þetta en mér fannst þetta döpur umfjöllun og ófagmannleg. Þetta var ekki mjög vísindaleg könnun sem þeir félagar gerðu. Ég set spurningamerki við það hvernig þetta var sett fram."

Arnari finnst skrítið að þáttastjórnendur hafi ekki haft samband beint við sig áður en umræðan fór fram. „Svo set ég spurningamerki við að fyrrverandi leikmenn séu að tala á þennan hátt um leikmannasamtök," segir Arnar.

Hann segir einnig að misskilningur virðist vera um könnun sem samtökin létu gera. Könnunin hafi verið framkvæmd meðal allra leikmanna í efstu deild en ekki bara meðlima í samtökunum.

„Könnunin er send á alla leikmenn Pepsi Max-deildanna. Ef við miðum við 18 manna hóp tóku 95% þátt, 371 leikmaður úr báðum deildum. Að ætla að gera lítið úr þeirri könnun því samkvæmt þeim séu svo fáir í samtökunum þá ertu strax búinn að missa vopnin úr höndunum," segir Arnar en niðurstaðan í könnuninni var sú að stór hluti leikmanna vilji slaufa mótinu.

„Þegar við gerum kannanir sendum við þær á öll félögin, við viljum hvað allir eru að segja, ekki bara þeir sem eru í samtökunum. Það er ekki skoðun leikmannasamtakana að það eigi að slaufa mótinu, við viljum að leikmenn hafi rödd. Markmiðið okkar núna er að leikmenn fái rödd," segir Arnar.

Hann segir það þó klárlega rétt að of fáir leikmenn séu skráðir í Leikmannasamtökin.

„Það er vissulega áhyggjuefni af hverju fleiri íslenskir leikmenn eru ekki að sækjast eftir því að vera í leikmannasamtökum. Við höfum alveg spáð í því af hverju svo er. Þetta er nýtt og kannski átta leikmenn sig ekki á því hvað þetta er nákvæmlega. Ef leikmenn lenda í veseni þá er aðstoð til staðar en kannski er það ekki nægilega góður sölupunktur. Það er áhugavert að sjá það þegar erlendir leikmenn koma hingað, eitt það fyrsta sem þeir gera er að leita okkur uppi og skrá sig í samtökin."
Útvarpsþátturinn - Íslenski boltinn og Logi Ólafs
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner