Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 27. mars 2020 16:35
Magnús Már Einarsson
Leifur Garðars velur draumalið Everton
Duncan Ferguson og Leifur Garðarsson. Duncan er á sínum stað í liðinu.
Duncan Ferguson og Leifur Garðarsson. Duncan er á sínum stað í liðinu.
Mynd: Úr einkasafni
Leighton Baines.
Leighton Baines.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
Tim Cahill tekur fagnið sitt fræga.
Tim Cahill tekur fagnið sitt fræga.
Mynd: Getty Images
Wayne Rooney fagnar marki.
Wayne Rooney fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Þar sem enginn fótbolti er í gangi á Englandi þessa dagana þá er tilvalið að líta aðeins um öxl. Fótbolti.net fékk Leif Garðarsson, stuðningsmann Everton, til að velja úrvalslið leikmanna sem hafa spilað með liðinu í gegnum tíðina.

Sjá einnig:
Kristján Atli velur druamalið Liverpool
Kristján Óli velur druamalið Liverpool
Siggi Helga velur draumalið Manchester City
Jóhann Már velur draumalið Chelsea
Hjálmar Örn velur draumalið Tottenham
Tommi Steindórs velur draumalið West Ham
Maggi Bö velur draumalið Crystal Palace„Það var alls ekki auðvelt að velja 11 leikmenn til að skipa þetta lið mitt. Nokkrir úrvalsleikmenn fá t.d. ekki pláss í mínu liði. Allra verst finnst mér að skilja Leon Osman eftir, leikmaður sem hefur alltaf verið einn af mínum allra uppáhalds Everton leikmönnum. Ég stilli upp leikaðferðinni 4 4 2 með tígulmiðju," sagði Leifur.

Markvörður - Neville Southall
Big Nev var stórkostlegur markvörður. Lék um 750 leiki fyrir Everton, leikjahæstur allra fyrir félagið og var valinn besti leikmaður tímabilsins árið 1985 af blaðamönnum. Besti markvörður sinnar tíðar. Welski landsliðsmaðurinn starfar nú í félags- og skólaþjónustu í Wales og þaðan frétti ég reglulega af kappanum í gegnum sameiginlega vini. Sá sem honum næstur í svona vali væri líklega Nigel Martyn, geggjuð kaup á sínum tíma.

Hægri bakvörður - Gary Stevens
Frábær bakvörður í frábæru liði Howard Kendall á sínum tíma. Vann bikar og deild með Everton áður en hann fór til Glasgow Rangers þar sem hann vann 6 meistaratitla. Gary var fastamaður í enska landsliðinu í kringum 85-90 og rétt undir 50 landsleiki. Geysilega öflugur bakvörður sem gaf allt í hvern leik og þurfti ekki sérstaka hvatningu til skella í eina tæklingu eða tvær.

Vinstri bakvörður - Leighton Baines
Sturlaður vinstri fótur, magnaðar spyrnur, geggjaður leikskilningur og framúrskarandi gítarleikari. Enginn vinstri bakvörður í veröldinni toppar Leighton Baines. Evertonian frá fæðingu og ákaflega traustur leikmaður sem skilar alltaf sínu og rúmlega það. Á óskiljanlega fáa landsleiki fyrir England, sem segir reyndar meira um fuglana sem stýrt hafa enska landsliðinu heldur en hæfileika Bainsy. Besta vítaskyttan í sögu enska boltans.

Miðvörður - Phil Jagielka
Jags byrjaði í yngri liðum Everton, skaust svo aðeins til Sheffield, kom til baka og varð leiðtogi liðsins í 12 ár. Frábær miðvörður með mikinn hraða og oft verið talinn hraðasti miðvörður deildarinnar. Skoraði 14 mörk í 322 leikjum. Fyrir utan þá tölu er bikarsigurvíti Everton gegn Man Utd á Wembley fyrir framan mig og Anton Inga son minn og fullan völl árið 2009. Jags lék 40 sinnum fyrir England. Fyrirliði af Guðs náð.

Miðvörður - Kevin Ratcliffe
Annar Walesverji, byrjaði sem vinstri bakvörður en var fljótlega færður í miðvörðinn. Örvfættur Ratcliffe var orðinn fyrirliði Everton 23 ára gamall og var mikill leiðtogi. Lyfti enska bikarnum 1984 og svo Englandsmeistaratitlinum í kjölfarið. Hafði mikinn hraða og var góður á boltanum. Lék 59 landsleiki, flesta sem fyrirliði Wales og starfar nú fyrir BBC Sport þar í landi.

Djúpur á miðju - Mikel Arteta
Himnasending frá Glasgow Rangers, upphaflega frá San Sebastian á Spáni. Miðjumaður með stórkostlegan leikskilning og hárfínt auga fyrir samspili. Skoraði einnig mörg frábær mörk fyrir Everton, oftar en ekki beint úr aukaspyrnu. Spilaði rétt undir 200 sinnum fyrir Everton og bar fyrirliðabandið í mörgum þeirra. Oft verið nefndur sem framtíðar knattspyrnustjóri Everton sem segir margt um það hversu jákvætt stuðningsmenn hugsa til hans.

Hægra megin á miðju - Trevor Steven
Geggjaður hægri útherji í sigursælu Everton liði. Trevor og Gary Stevens náðu frábærlega saman á hægri vængnum enda léku þeir einnig marga landsleiki saman fyrir England. Enda varð enginn hissa þegar tíma Trevor hjá Everton lauk að hann skyldi skella sér til Glasgow og leika fyrir framan Gary í sigursælu Rangers liði. Trevor var ákaflega flinkur vængmaður af gamla skólanum, með frábærar fyrirgjafir, geggjaður í að „taka menn á“, gott auga fyrir spili og skoraði einnig í kringum 50 mörk fyrir Everton.

Vinstra megin á miðju - Gylfi Þór Sigurðsson
Það var aldrei séns að ég væri að fara að setja saman Everton lið án Gylfa Þórs Sigurðssonar. Ég hef alltaf haft mikla trú og mætur á Gylfa. Allt í lagi, skal vera nákvæmari. Ég dýrka knattspyrnumanninn Gylfa Sig. Leikmaður með einstakan leikskilning, framúrskarandi spyrnutækni og magnaðan dugnað á velli. Vissulega hefur yfirstandandi leiktíð verið Gylfa erfið, en það má að hluta skrifast á uppstillingu líðsins og endalausar breytingar og færslur á leikstöðu. Hugsa sér Gylfa í Everton liði með þeim sem ég stilli hér upp. Gylfi að finna ennið á Cahill eftir hlaup frá þeim síðarnefnda úr djúpinu. Gylfi að finna Stóra Duncan í góðu skallafæri. Gylfi í kringum menn eins og Rooney og Arteta sem hafa líkan leikskilning. Þvílík veisla.

Fremstur á miðju - Tim Cahill
Að Tim Cahill skyldi hafa kostað Everton 1,4 milljónir punda frá Millwall árið 2004 er líklega stærsta grín knattspyrnusögunnar. Þvílíkur leikmaður, þvílíkur karakter. Yfir 200 leikir fyrir Everton, yfir 50 mörk og yfir 100 landsleikir fyrir Ástralíu. Held ég geti fullyrt að afar fáir knattspyrnumenn hafa verið betri í því að stinga sér úr djúpinu, inn í teiginn, koma varnarmönnum að óvörum og skora mark. Geggjaður skallamaður með frábærar tímasetningar í bæði hlaupi og uppstökki. Sprettur út að hornflaggi, smá box við fánann, slá í stöngina. YES!

Framherji - Wayne Rooney
Ég heimsótti æfingasvæði Everton reglulega um árabil, eyddi dögunum með þjálfurum yngri liða félagsins og náði að fylgjast með uppvexti Wayne Rooney. Sannkölluð forréttindi. Það var ljóst frá fyrsta degi að hann yrði sá stórkostlegi knattspyrnumaður sem hann svo er og varð. Er segi ég, því ég var í Sheffield um daginn og sá hann leika með Derby County þar sem hann var yfirburðarmaður á vellinum og stýrði þeim leik algerlega upp á eigin spýtur. Rooney gekk í raðir Everton 9 ára gamall og kannski er sorglegast að hann náði ekki einu sinni 100 leikjum með aðalliði Everton í heildina, en Once a Blue – always a Blue.

Framherji - Duncan Ferguson
Big Duncan var orðinn dýrlingur í bláum hjörtum stuðningsmanna Everton áður en hann klæddist treyjunni. Gersamlega geggjaður einstaklingur. Það hefur líka verið áberandi undanfarið hversu mikla þýðingu Everton hefur í hans hjarta, bæði þegar hann stýrði liðinu með frábærum árangri og nú sem hluti af þjálfaraliði Ancelotti. Duncan er einn af bestu skallamönnum í knattspyrnusögunni og hafði magnaðan leikskilning. Það er nefnilega ekki nóg að vinna skallaeinvígi, þú þarft líka að vita hvert er best að skalla. Duncan var snillingur í því. Sannarlega handfylli fyrir alla andstæðinga enda nefna margir Big Duncan sem erfiðasta andstæðing sinn á ferlinum. Duncan getur líka verið handfylli utanvallar. Því kynntust tveir óheppnir einstaklingar árið 2001 þegar þeir ákváðu að brjótast inn hjá honum. Eflaust hafa þeir ekki vitað hver bjó í því húsi því annar þeirra eyddi næstu dögum á spítala og hinn náðist á flótta, okkar maður var nefnilega heima. Duncan er annars yndislegur maður, því hef ég líka fengið að kynnast. Herra Everton.

Aðrir sem komu helst til greina, ekki í neinni sérstakri röð:
Leon Osman, Steven Pienaar, Gary Lineker, Paul Bracewell, Peter Reid, Romelu Lukaku, Dave Watson, Tony Hibbert, Andy Gray, Nigel Martyn, Greame Sharp, Aidrian Heath, Thomas Gravesen, Alan Stubbs og Paul Gasgoigne.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner