„Spá er bara spá og lítið hægt að segja við því. Erum með okkar markmið og væntingar og það er það sem skiptir máli," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, er hann er spurður út í spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.
Fram er spáð níunda sæti Bestu deildarinnar í sérstakri spá álitsgjafa Fótbolta.net.
Fram er spáð níunda sæti Bestu deildarinnar í sérstakri spá álitsgjafa Fótbolta.net.
„Gengið hefur verið þokkalegt í vetur, mikið af nýjum leikmönnum og höfum verið að prófa okkur áfram. Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel og æfingaferðin til Spánar var frábær að veðrinu undanskildu! Við spiluðum við Lilleström og Ranheim sem er fín reynsla að taka með sér inn í tímabilið."
Rúnar er á leið inn í sitt annað tímabil með Fram og er mjög spenntur að takast á við það.
„Ég er mjög spenntur að fara inn í mitt annað tímabil. Auðvitað eru miklar breytingar á liðinu en það er eitthvað sem við í þjálfarateyminu töldum nauðsynlegt til að taka skref í rétta átt. Er með frábært teymi með mér og stjórn sem hefur stutt við bakið á okkur í þessum breytingum."
Hvernig horfirðu til baka á síðasta tímabil?
„Eins og ég hef oft sagt áður að þá horfi ég á fyrstu 22 umferðirnar og við endum í sjöunda sæti. Við vorum 18 umferðir af 22 í topp sex. Eftir skiptingu vinnum við fyrsta leikinn og erum þá öruggir og einhvern veginn virtust menn bara vera sáttir við það og við nánast hættum sem var alls ekki ásættanlegt. Við eigum allir sök þar á, leikmenn sem og þjálfarar," sagði Rúnar en menn hafa eflaust lært mikið af síðasta tímabili.
Fram stefnir á það að vera í baráttunni um að komast í efri hluta deildarinnar.
„Markmiðið er að gera betur en í fyrra og bæta okkur sem lið og sem félag. Vorum lengi vel í baráttunni um topp sex í fyrra og viljum vera í þeirri baráttu."
„Stuðningsmenn okkar voru frábærir í fyrra frá fyrsta leik og það var virkilega gaman að sjá hversu vel var mætt og stuðningurinn var geggjaður. Vonandi fáum við áfram þennan stuðning og það eru allir velkomnir, hvergi betra að mæta á leiki en hjá Fram þar sem hægt er að gæða sér á heimsklassa kakói og heitum samlokum, tala nú ekki um borgarana; verst að ég þarf alltaf að vera á hliðarlínunni," sagði Rúnar léttur að lokum.
Athugasemdir