Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur gefið John Heitinga, aðstoðarþjálfara félagsins, leyfi til þess að fara í viðræður við Ajax í Hollandi.
Heitinga kom inn í þjálfarateymi Liverpool á síðasta ári er Arne Slot tók við liðinu.
Hann fékk þann heiður að stýra Liverpool í sigri á Newcastle United þann 26. febrúar síðastliðinn er Slot tók út leikbann.
Hollendingurinn er að öllum líkindum á förum frá Liverpool eftir tæpa ársdvöl en Fabrizio Romano segir að enska félagið hafi gefið honum formlegt leyfi til þess að fara í viðræður við Ajax.
Ajax er án þjálfara eftir að Francesco Farioli yfirgaf félagið aðeins nokkrum dögum eftir að hafa tapað titilbaráttunni gegn PSV og hefur leitin að arftaka hans staðið yfir síðustu daga.
Erik ten Hag leiddi baráttuna um starfið en ákvað í staðinn að taka við Bayer Leverkusen og hefur því Ajax leitað til Heitinga, sem gæti verið að taka við aðalliðinu í annað sinn á tveimur árum.
Hann tók við sem bráðabirgðaþjálfari Ajax í janúar árið 2023 og stýrði því út tímabilið en félagið kaus að fá Mauric Steijn til að leiða liðið áfram tímabilið á eftir. Heitinga hélt til Englands að aðstoða Moyes hjá West Ham, en yfirgaf félagið ásamt öllu þjálfarateyminu er samningur Moyes rann út um sumarið.
Athugasemdir