Ummæli Orra Hjaltalín í viðtali í gær hafa vakið mikla athygli. Orri, sem er þjálfari Þórs, var ekki ánægður með dómgæsluna í leik liðsins gegn Fram í Lengjudeildinni.
„Það koma ein eða tvær glórulausar tæklingar sem hann sleppir og farið í hausinn á markmanninum í tvígang svo er hann búinn að henda spjöldum á hálft liðið mitt í fyrri hálfleik fyrir lítið sem ekki neitt. Þetta var bara til skammar hvernig hans framkoma var í leiknum í dag," byrjaði Orri og var þar að tala um Guðgeir Einarsson sem dæmdi leikinn.
„Það koma ein eða tvær glórulausar tæklingar sem hann sleppir og farið í hausinn á markmanninum í tvígang svo er hann búinn að henda spjöldum á hálft liðið mitt í fyrri hálfleik fyrir lítið sem ekki neitt. Þetta var bara til skammar hvernig hans framkoma var í leiknum í dag," byrjaði Orri og var þar að tala um Guðgeir Einarsson sem dæmdi leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 0 - 2 Fram
Orri lét ekki þar við liggja heldur ýjaði að því að annar af aðstoðardómurum leiksins hefði vísvitandi dæmt gegn Þórsurum.
„Ég vil líka taka það fram að það er gjörsamlega galið að vera með aðstoðardómara frá hinu liðinu á Akureyri, þetta myndi aldrei vera tekið í mál í Reykjavík. KSÍ á alveg nógu mikla peninga til að geta fengið einhvern hlutlausan í að koma hérna og dæma þessa leiki. Ég er búinn að horfa á hans frammistöðu hjá okkur í síðustu leikjum og hún hefur ekki verið okkur í hag ef við orðum það pent," sagði Orri í viðtalinu. Patrik Freyr Guðmundsson var aðstoðardómari tvö í leiknum og hann er KA maður.
Fótbolti.net heyrði í Þóroddi Hjaltalín Jr., formanni dómaranefndar KSÍ, og óskaði eftir viðbrögðum hans við þessum ummælum Orra.
„Við munum örugglega skoða þessi ummæli. Ég hef ekki séð neitt úr þessum leik, ég var á ferðalagi í allan gærdag," sagði Doddi sem staddur er í Andorra.
„Þetta er með ólíkindum. Það er eiginlega ekki hægt að lesa út úr þessu öðruvísi en að hann sé að saka aðstoðardómarann um að vera svindlari. Það er það sem fer mest í taugarnar á mér og hefur alltaf gert allan minn dómaraferil, þegar það er verið að saka okkur um að svindla. Ég er aldrei neitt sérstaklega hrifinn af því. Mér finnst það virkilega óheiðarlegt og við munum klárlega fara yfir þessi ummæli."
„Við getum alltaf haft skoðanir á dómgæslunni eins og öllu öðru, og eigum að gera það, en það fer rosalega fyrir brjóstið á mér þegar verið er að saka okkur um að svindla. Ég þekki dómarahópinn mjög vel og var lengi í þessu. Það eru allir að gera sitt besta og sem betur fer höfum við ekki þurft að díla við eitthvað svindl á Íslandi og ég ætla að vona að það verði þannig áfram. Þetta er 'over the top' finnst mér."
Þóroddur verður í eftirliti fyrir UEFA á leik FC Santa Coloma og Hibernians í Sambandsdeildinni á morgun.
Athugasemdir