'Ég er bara ánægður og stoltur að hafa verið hluti af landsliðinu í fimmtán ár sem er nánast hálf ævin mín'
„Ég hugsaði þetta og ákvað þetta eiginlega 90% eftir landsleikina í mars. Það voru fyrst og fremst gríðarleg vonbrigði að komast ekki áfram og að spila núll mínútur í fyrsta skipti með landsliðinu í mjög, mjög langan tíma. Eftir ágætis undankeppni, þá var það smá vakning (reality check). Maður vill ekki taka ákvarðanir út frá einhverjum tilfinningum, og ég vissi að ég þyrfti ekki að flýta mér neitt, þá ákvað ég að bíða með þetta fram í ágúst," segir Alfreð Finnbogason sem tilkynnti í gær að landsliðsskórnir væru komnir upp á hillu.
Alfreð lék 73 leiki með íslenska landsliðinu og skoraði í þeim átján mörk. Það gerir hann að fjórða markahæsta leikmanni liðsins í sögunni. Hann lék sinn fyrsta leik árið 2010, kom þá inn á gegn Færeyjum í vináttulandsleik. Hans síðasti leikur var svo gegn Portúgal í nóvember.
Alfreð lék 73 leiki með íslenska landsliðinu og skoraði í þeim átján mörk. Það gerir hann að fjórða markahæsta leikmanni liðsins í sögunni. Hann lék sinn fyrsta leik árið 2010, kom þá inn á gegn Færeyjum í vináttulandsleik. Hans síðasti leikur var svo gegn Portúgal í nóvember.
„Ég vildi sjá hvernig staðan væri á mér núna í ágúst, vildi sjá hvort ég væri að spila á fullu í hverri viku. Þá væri staðan kannski öðruvísi. Ég er ánægður með þessa ákvörðun og mér finnst þetta vera rétti tímapunkturinn."
Vildi frekar taka þessa ákvörðun
Alfreð að segir að ákvörðunin hafi verið gríðarlega erfið.
„Maður hefur ekki verið mikið að setjast niður og horfa til baka á meðan ferillinn hefur verið í gangi, maður hefur alltaf verið að spá í næsta leik og næsta augnabliki. Ég hafði smá tíma núna til að fara yfir stöðuna, hvernig ég sé næstu ár. Ég var að vonast til að vera kominn í betri stöðu hjá mínu félagsliði, vera að spila í hverri viku. Þá hefði kannski verið réttlætanlegra að gera áfram tilkall á að spila með landsliðinu í 1-2 ár í viðbót."
„Mér finnst leikirnir framundan vera undirbúningur fyrir undankeppni HM. Annað hvort er maður í þessu heildarferli og er að stefna á að fara á HM eða þá ekki. Mér finnst að þeir sem eru að fara spila í þessari næstu undankeppni eigi að spila sem flestar mínútur núna, en það er auðvitað bara mín skoðun."
„Verandi með eitt ár eftir af samningi þá sá ég ekki alveg hvernig framhaldið verður. Það er mikil óvissa að vera samningslaus á eldri árum og ég vildi því frekar taka þessa ákvörðun og vera ánægður með hana. Þá þarf maður ekki að setja einhverja auka pressu á sig að þurfa að vera þar og hér til að vera í landsliðinu."
Ósáttur með að hafa ekki komið inn á
Alfreð byrjaði fimm fyrstu leikina, og alls sjö af tíu leikjum í undankeppninni fyrir EM. Allir leikirnir voru spilaðir á síðasta ári og var hann í byrjunarliðinu í lokaleik undankeppninnar sem svo reyndist lokaleikurinn með landsliðinu. Það var leikurinn gegn Portúgal ytra.
Alfreð nefnir umspilsleikina í mars, leikina við Ísrael og Úkraínu, og þá staðreynd að hann kom ekkert við sögu í þeim leikjum. Ísland lenti 2-1 undir gegn Úkraínu en þrátt fyrir að þurfa mark til að komast í framlenginu þá fékk Alfreð ekki kallið.
Horfirðu til baka og hugsar af hverju þú komst ekki inn á?
„Á þeim tíma var ég gríðarlega svekktur og ósáttur eins og alltaf þegar maður spilar ekki, en sérstaklega þarna þegar augnablikið er svona stórt. Það gerist ekki stærra en þetta, við þurftum að skora til að koma okkur á stórmót. Án þess að gera eitthvað lítið úr öðrum, þegar maður skoðar bekkinn og horfir í landsliðsmörk og reynslan að hafa gert þetta áður, þá fannst mér vera móment til að koma inn á. En þjálfarinn er í starfi til að taka slíkar ákvarðanir og hann ákvað að fara í aðra átt. Mér fannst þetta skrítið, en það er bara mín skoðun, ein skoðun af mörgum."
„Einhvern veginn fannst manni hlutverkið innan vallar vera búið að minnka mjög mikið á stuttum tíma og þá þarf maður að hugsa hvað maður vill, hvað vill maður fá út úr þessu. Á endanum fannst mér kannski ekki vera þess virði að halda áfram í þannig aðstæðum."
Mikill óstöðugleiki
Age Hareide tók við landsliðinu eftir fyrstu tvo leikina í undankeppninni á síðasta ári. Alfreð var spurður út í hlutverkið í síðustu undankeppni og hvernig hann horfir til baka á hana.
„Ég byrjaði fyrstu leikina undir hans stjórn, þetta fór allt rosalega vel af stað; þó að við höfum tapað fyrstu leikjunum þá var frammistaðan góð bæði á móti Slóvakíu og Portúgal. Svo komu úrslit sem voru ekki góð, tap gegn Lúxemborg úti."
„Maður kynnist þjálfara virkilega þegar illa gengur, það var mikið um breytingar og mikill óstöðugleiki í liðinu. Við vorum einhvern veginn alltaf að leita að okkar liði og breytingar á milli glugga. Við erum kannski ennþá í þeim fasa að leita að okkar liði. Það var svolítið erfitt að fara inn í hvert verkefni og það var svolítil óvissa. Það vantaði svolítið beinagrindina af liðinu."
Líður vel með að hætta
Alfreð ræddi við Hareide fyrr í þessum mánuði.
„Ákvörðunin að kalla þetta gott liggur bara hjá mér. Við áttum spjall í byrjun ágúst og það breytti í raun ekki minni afstöðu. Ég var eiginlega búinn að ákveða mig og þurfti bara loka staðfestinguna. Ég var að bíða eftir rétta tímapunktinum til að tilkynna þetta. Tímasetningin er bara góð, hugurinn segir að ákvörðunin sé rétt og það hefur ekki komið neitt augnablik þar sem það hefur breyst."
„Staðan á liðinu, framherjastöðunni, er góð. Þannig mér líður bara vel með að hætta. Ég er bara ánægður og stoltur að hafa verið hluti af landsliðinu í fimmtán ár sem er nánast hálf ævin mín. Þetta er búinn að vera stór hluti af lífi mínu og maður skilgreinir sig sem landsliðsmann. Nú tekur bara annað við og fókusinn á að enda ferilinn vel. Það er bara eitthvað sem ég er spenntur fyrir."
Undankeppnin fyrir HM stærsta afrekið - Alltaf skemmtun
Þegar horft er í landsliðsferil Alfreðs þá er staldrað við HM í Rússlandi árið 2018. Alfreð skoraði mark Íslands í 1-1 jafntefli gegn Argentínu í fyrsta leik Íslands á HM, augnablik sem aldrei mun gleymast og nafn Alfreðs verður í sögubókunum um ókomna tíð. Hann var spurður út í aðra hápunkta.
„Fyrst og fremst er það að hafa verið hluti af þessu liði sem kemst tvisvar sinnum í gegnum mjög erfiða undankeppni og fer á stórmót. Ég held að stærsta fótboltalega afrekið hafi verið að vinna riðilinn fyrir HM."
„Að vera hluti af 23 manna hópi Íslands sem fer á HM er eitthvað sem ég er ótrúlega stoltur af. Það er einn af hápunktunum"
„Hópurinn, vinskapurinn, tíminn saman með landsliðinu; ég hlakkaði alltaf til að fara í landsliðið, var að fara hitta vini mína. Að vera í félagsliði er oft á tíðum hark, en landsliðið var alltaf skemmtun og gaman að koma saman. Það skemmdi náttúrulega ekki fyrir að það gekk ótrúlega vel og alltaf stuð að koma saman. Það eru frábærar minningar og það stendur upp úr."
Festa og velgengni
Stór partur af liðinu sem fór á EM og svo HM er gullkynslóðin sem fór í lokakeppni EM sumarið 2011.
Hversu mikilvægt er að sá kjarni hélst svo vel áfram og myndaði stóran hluta A-landsliðsins?
„Ótrúlega mikilvægt. Við fengum bunka af leikmönnum á svipuðum aldri sem er kannski sjaldgæft. Það er kannski, vonandi, eitthvað sem er hægt að byggja á núna. Það er ákveðinn kjarni af ungum leikmönnum núna sem geta byggt upp nýtt lið og spennandi lið í bland við eldri leikmenn. Hversu langt þeir munu ná, það getur enginn sagt í dag."
„Í gegnum þessi ár þá var mikil festa. Það var hægt að gefa sér nokkurn veginn 20 af 23 sem yrðu í hópnum. Ef það er hægt, þá þurfum við að leita í það þegar við skoðum hvernig við náðum árangri áður," segir Alfreð.
Alfreð ræddi nánar um framtíð sína á ferlinum í viðtalinu sem verður birt seinna í dag, miðvikudag, hér á Fótbolta.net. Hann ræddi einnig um ráðgjafastarf sitt hjá Breiðabliki og framherjastöðuna í landsliðinu.
???????? Takk fyrir leikina, takk fyrir mörkin.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) August 27, 2024
???? Takk fyrir allt Alfreð!
?? Thank you for the memories @A_Finnbogason - happy international retirement! #viðerumísland pic.twitter.com/5SWcCgsmFv
Athugasemdir