Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 28. september 2022 13:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tveir leikmenn Gróttu eftirsóttir - „Hafa reglulega komið tilboð"
Lengjudeildin
Kjartan Kári Halldórsson.
Kjartan Kári Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hafa verið ýmsar sögusagnir í kringum leikmanna- og þjálfaramál Gróttu upp á síðkastið.

Fram kom í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag að Kjartan Kári Halldórsson og Luke Rae væru eftirsóttir, að félög í Bestu deildinni væru að horfa til þeirra.

Talað var um það að Stjarnan hafi reynt að fá þá báða í sumarglugganum og gæti gert aðra tilraun núna í vetur.

Þá hafa verið sögur um það að Chris Brazell, ungi Englendingurinn sem þjálfar liðið, sé að horfa í kringum sig og langi að taka að sér enn stærra verkefni.

„Það hafa reglulega komið tilboð, ekkert meira núna en í sumar. Það er mikill áhugi en þessir drengir eru báðir búnir að standa sig frábærlega. Það er ekkert útséð með hvernig það endar hjá okkur," sagði Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Gróttu, í samtali við Fótbolta.net.

„Almennt varðandi leikmanna- og þjálfaramál, þá erum við á fleygiferð að loka þeim málum. Við erum bjartsýn á að halda í sama þjálfarateymi og svipaðan leikmannahóp og var í sumar. Sú vinna er á fleygiferð."

Kári staðfestir að það hafi komið tilboð í Luke Rae og Kjartan Kára um mitt sumar. „Það er mikill áhugi á þeim þar sem þeir hafa vakið mikla athygli hjá okkur. Við þurfum að skoða hvað er best fyrir þá og hvað er best fyrir okkur."

Báðir leikmenn eru áfram samningsbundnir og þurfa önnur félög að komast að samkomulagi við Gróttu um kaupverð.

Grótta hafnaði í þriðja sæti Lengjudeildarinnar í sumar og var mikil ánægja með árangurinn innan félagsins. „Árangurinn er búinn að vera mjög góður. Það er mikil ánægja með Chris og ekki síður hans aðstoðarmenn. Það er verið að teikna upp kapal í kringum Chris og þau mál eru á góðum stað hjá okkur."
Útvarpsþátturinn - Stóru fréttirnar að norðan, landsliðin og bestir í Bestu
Athugasemdir
banner
banner