Það er óhætt að segja að spennan sé mikil hjá stuðningsmönnum Víðis í Garði sem leikur til úrslita í Fótbolti.net bikarnum á Laugardalsvelli á morgun föstudag. Andstæðingurinn er lið KFG úr Garðabæ og sigurliðið verður það fyrsta í sögunni til þess að lyfta hinum nýja Fótbolti.net bikar sigurlaunum í bikarkeppni neðri deilda.
27.09.2023 14:30
Mikil spenna í Garðinum - „Góð sýning fyrir okkar litla bæjarfélag“
Víðismenn eru ekki alveg ókunnugir því að leika til úrslita um bikar á Laugardalsvelli en liðið lék til úrslita í bikarkeppni KSÍ sumarið 1987 og mætti þar Fram. Suðurnesjaliðið sem átti sín gullaldarár á þessum árum, lék meðal annars nokkur tímabil í efstu deild og byggði því sem næst eingöngu á heimamönnum. Má því segja að árangur liðsins hafi verið nokkuð afrek. Leikmenn eins og Daníel Einarsson, Björn Vilhelmsson og Sævar Leifsson voru kannski ekki ofarlega á baugi í umræðu um bestu leikmenn landsins, en tóku þátt í þessu ævintýri Víðismanna sem fóru líkt og áður segir alla leið í úrslit bikarsins þetta árið.
Hvað leikinn sjálfan gegn Fram varðar þá sá lið Víðis aldrei til sólar þar. Lokatölur urðu 5-0 í leik þar sem Víðismenn sáu lítið af boltanum innan sinna raða gegn einu öflugasta liði landsins á þeim árum. Í viðtali við Morgunblaðið eftir leik sagði Guðjón Guðmundsson fyrirliði Víðismanna.
„Taugarnar brugðust og leikurinn snerist upp í martröð. Framararnir eru snillingar í að halda boltanum og þetta var bara eltingarleikur hjá okkur. Fyrir bragðið komumst við aldrei inn í leikinn, en Framararnir sýndu að þeir eru langbestir í dag.“
Lið Fram var afar vel mannað á þessum árum. en í liði þeirra í leiknum voru meðal annars Friðrik Friðriksson þáverandi landsliðsmarkvörður, Pétur Ormslev, Guðmundur Steinsson sem gerði tvennu í leiknum og Keflavíkurgoðsögnin Ragnar Margeirsson. Í viðtali við Morgunblaðið eftir leikinn sagði Guðmundur:
„Ég bjóst við miklu meiri baráttu frá þeim. Við stjórnuðum leiknum frá fyrstu til síðustu mínútu. Héldum boltanum vel og lékum skynsamlega. Reynsla okkar í stórleikjum réði úrslitum en þeir voru mjög taugaveiklaðir. Þetta er fjórði bikarsigur minn og ég held ég megi segja sá sem ég hef haft minnst fyrir.“
Það má því segja að þó saga Víðismanna úr úrslitaleikjum á Laugardalsvelli sé stutt sé hún hálfgerð harmsaga. En núverandi leikmenn og þjálfarar Víðis búa þó að því að geta leitað í reynslubanka forvera sinna um hvað ber að varast í áhlaupi þeirra að því að verða fyrstu Fótbolti.net bikarmeistararnir.
Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli á morgun föstudag og verður flautað til leiks klukkan 19:15
28.09.2023 08:15
Upplýsingapakki fyrir úrslitaleik Fótbolti.net bikarsins
Tryggðu þér miða hérna
Athugasemdir