Heimild: Vísir
Davíð Smári Lamude var ósáttur eftir 5-0 tap Vestra á heimavelli gegn ÍBV í dag þar sem Vestfirðingar steinlágu í fallbaráttunni.
Eyjamenn leiddu með fjögurra marka mun í hálfleik og er Davíð sérstaklega ósáttur með hvernig mörk liðið fékk á sig.
„Þetta er eitt stærsta tap mitt á ferlinum á Íslandsmóti held ég. Mitt stærsta tap síðan ég tók við Vestra," sagði Davíð Smári við Vísi að leikslokum.
„Það skrýtna við þetta er að mér fannst þetta ekki vera 5-0 leikur, en staðreyndin er sú að við hefðum getað tapað stærra. Í hvert einasta skipti sem þeir komust inn í vítateiginn þá gátu þeir skorað.
„Öll mörkin sem við fengum á okkur í dag eru bara mistök. Yfirleitt er það nú þannig í fótbolta en í dag var þetta ekkert annað en einbeitingarleysi. Við sjáum það í öllum mörkunum sem þeir skora og sérstaklega í öðru markinu sem kemur eftir lélega sendingu til baka."
Vestri er núna án sigurs í síðustu sex deildarleikjum og er liðið aðeins þremur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir. Liðið á tvo útileiki framundan eftir stór töp á heimavelli gegn ÍBV og ÍA.
„Við unnum ekki návígin á miðsvæðinu og þeir fengu alltof mikinn tíma á boltann sem var okkar helsti fókus fyrir leikinn að þeir fengu ekki. Við þurfum að horfa í spegilinn og takast á við þessi vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Við gerum það sem lið. Það verður bara að vera næsti leikur og áfram gakk.
„Ég tek þetta tap mjög nærri mér. Þetta er mitt stærsta tap með Vestra þannig ég horfi mjög alvarlegum augum á þetta."
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍBV | 24 | 9 | 6 | 9 | 30 - 29 | +1 | 33 |
2. KA | 24 | 9 | 5 | 10 | 35 - 44 | -9 | 32 |
3. ÍA | 24 | 9 | 1 | 14 | 33 - 45 | -12 | 28 |
4. Vestri | 24 | 8 | 3 | 13 | 23 - 37 | -14 | 27 |
5. Afturelding | 24 | 6 | 7 | 11 | 33 - 42 | -9 | 25 |
6. KR | 24 | 6 | 6 | 12 | 46 - 58 | -12 | 24 |
Athugasemdir