Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 28. nóvember 2020 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Nasser um hendi Guðs: Sneru báðir frá mér
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ali Bin Nasser, 76 ára gamall fyrrum dómari frá Túnis, dæmdi stórleik Argentínu og Englands í 8-liða úrslitum á HM 1986 þegar Diego Armando Maradona skoraði tvö af frægustu mörkum knattspyrnusögunnar.

Fyrra markið skoraði Maradona með hendi en dómarateymið tók ekki eftir því og fékk markið að standa þrátt fyrir mótmæli Englendinga. Nasser segir að Gary Lineker hafi verið duglegur að mótmæla en að lokum var það aðstoðardómarinn sem hafi tekið ákvörðunina þar sem hann var með besta sjónarhornið.

„Ég man mjög vel eftir þessu atviki. Varnarmaður Englands gaf boltann til baka og Maradona stökk upp í boltann ásamt Peter Shilton en þeir snéru báðir frá mér. Þeir sneru í átt að aðstoðardómaranum, hinum búlgarska Bogdan Dochev," sagði Nasser við BBC.

„Ég sá þetta ekki nógu vel svo ég horfði til Dochev. Hann virtist ekki hafa séð neitt athugavert við markið og því hélt leikurinn áfram. Reglur FIFA voru skýrar, dómarinn með besta sjónarhornið tók ákvörðunina."

Dochev, sem lést fyrir þremur árum, viðurkenndi eftir atvikið að FIFA hafi sett skýrar reglur fyrir mót um að dómarar mættu ekki hafa samskipti sín á milli til að ræða vafaatriði á meðan leikurinn væri í gangi.

„Gary Lineker kom til mín og bað um hendi en ég bað hann um að halda áfram að spila. Við vorum bara að fylgja dómarareglunum."

Argentína vann leikinn 2-1 og stóð uppi sem heimsmeistari eftir 3-2 sigur gegn Vestur-Þýskalandi í úrslitaleiknum.
Athugasemdir
banner
banner
banner