mið 29. júlí 2020 17:43
Ívan Guðjón Baldursson
Birkir Valur: Er hér til að vinna mér inn sæti í byrjunarliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Slóvakíska félagið Spartak Trnava er búið að staðfesta félagaskipti Birkis Vals Jónssonar.

Birkir Valur er fæddur 1998 og hefur leikið 104 keppnisleiki fyrir HK. Hann fer til Trnava á hálfs árs samning með möguleika á framlengingu ef vel gengur.

Birkir Valur var öflugur með HK í sumar og vakti athygli á sér utan landsteinanna. Hann missti ekki af mínútu í Pepsi Max-deildinni og hefur verið öflugur í stöðu hægri bakvarðar.

„Ég æfði handbolta ásamt fótbolta í fjórtán eða fimmtán ár en valdi svo fótboltann. Ég er hreinræktaður varnarmaður og spilaði 27 leiki fyrir yngri landsliðin," sagði Birkir Valur í viðtali í Trnava.

„Ég vissi ekkert um slóvakíska boltann og aðstæður hérna hafa komið mér skemmtilega á óvart. Trnava er flott borg og allur búnaður er á hærra stigi en ég bjóst við. Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað.

„Ég hef ekki haft tíma til að kynnast strákunum en ég er hérna til þess að vinna mér inn sæti í byrjunarliðinu. Alla knattspyrnumenn dreymir um að spila í bestu deildum heims en það er löng leið þangað. Ég átta mig á því að maður verður að taka eitt skref í einu, þessa stundina er ég leikmaður Spartak og þarf að sanna mig hér til þess að geta tekið næsta skref einn daginn."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner