Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 30. maí 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lingard: Var ekki með hausinn á réttum stað
Mynd: Getty Images
Jesse Lingard hefur legið undir mikilli gagnrýni fyrir slakar frammistöður með Manchester United á tímabilinu.

Hinn 27 ára gamli Lingard hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og er búinn að skora tvö mörk og leggja tvö upp í 35 leikjum. Hann er búinn að koma við sögu í tuttugu deildarleikjum án þess að skora eða leggja upp.

Lingard áttar sig á því að hann hefur ekki verið að spila nægilega vel og ekki verið með hausinn á réttum stað. Hann segir persónulegar ástæður liggja að baki en öll vandamál hans séu nú leyst og hann sé tilbúinn til að snúa slöku gengi við.

„Ég var ekki með hugann við efnið, ég var ekki að reyna nóg á mig. Mér leið eins og þetta væri ekki ég. Þegar ég horfði á leiki með mér þá hugsaði ég með mér 'þetta er ekki Jesse'," sagði Lingard á Instagram.

„Ég veit hver ég er og fjölskyldan mín veit það líka. Ég veit hvað ég get gert á vellinum og eins og ég segi, þá var ég ekki að reyna nóg á mig á síðustu leiktíð. Fyrir mér er þetta eins og ný byrjun og mér líður vel bæði líkamlega og andlega.

„Ég var ekki með hausinn á réttum stað í fyrra. Það var margt sem spilaði inní en núna hafa öll vandamál utan vallarins verið leyst og ég get byrjað að njóta þess að spila fótbolta. Ég get ekki beðið eftir því að byrja að spila."


Lingard er búinn að missa sæti sitt í byrjunarliði Rauðu djöflanna og verður leiðin til baka ansi erfið enda samkeppnin nokkuð hörð.

„Ég setti mér engin markmið á síðasta tímabili. Núna ætla ég að setja mér markmið og verða að betri knattspyrnumanni."

Þegar Lingard talar um síðasta tímabil þá er hann vafalítið að tala um tímabilið sem hófst í ágúst í fyrra.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner