Markmannsþjálfari Breiðabliks, Haraldur Björnsson, tók Íslandsmeistaraskjöldinn með heim til sín eftir fögnuð Blika á sunnudagskvöldið. Eftir mikinn fögnuð, snemma á mánudagsmorgun fór Halli með skjöldinn með sér heim, passaði upp á að skjöldurinn væri í belti í leigubílnum á leiðinni heim.
En nóg af því glensi og meira af þjálfaranum Halla og markmanninum Antoni Ara Einarssyni. Anton Ari var besti markvörður Íslandsmótsins 2024 og fór fögrum orðum um þjálfarann sinn í viðtali hér á Fótbolti.net, sagði hann í heimsklassa.
En nóg af því glensi og meira af þjálfaranum Halla og markmanninum Antoni Ara Einarssyni. Anton Ari var besti markvörður Íslandsmótsins 2024 og fór fögrum orðum um þjálfarann sinn í viðtali hér á Fótbolti.net, sagði hann í heimsklassa.
Vinnan frá degi til dags sem skilaði þessu
„Ég var búinn að fylgjast mjög lengi með Antoni, spilað oft á móti honum og fylgst með honum vinna þrjá Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla. Sem markmaður þá fylgist maður með öðrum góðum markmönnum. Ég hafði mínar pælingar um smáatriði sem hann gæti lagað. Svo var vinna hjá okkur að fara í gegnum hvern einasta leik, klippa niður og skoða hvað var vel gert og hvað mögulega væri hægt að gera öðruvísi. Það var vinnan frá degi til dags sem skilar þessu."
„Anton og Brynjar (Atli Bragason varamarkvörður) tóku mér ekkert eðlilega vel, manni sem var ekki með neina reynslu í þjálfun þannig, eina reynslan var sem leikmaður. Þeir hlustuðu á það sem ég hafði að segja og það sem ég bað þá um að gera. Ég hugsaði hlutina ekki mikið lengra en einn leik í einu og um að bæta sig frá degi til dags. Einbeitingin fór í smáatriði, krafði þá um vinnu og að halda háu viðmiði í öllu sem þeir gerðu; gera alla hluti vel, hvort sem það væri á æfingu eða í leikjum. Ég vildi að þeir væru ósáttir við að missa boltann eða þegar þeir áttu lélega sendingar. Þetta snerist mikið um ákvörðunartöku."
Frábær frá fyrsta degi
Anton Ari, Höskuldur Gunnlaugsson og Ísak Snær Þorvaldsson voru aðalmennirnir í liði Breiðabliks þegar leið á tímabilið.
„Anton er búinn að vera algjörlega frábær frá fyrsta degi. Hann hélt hreinu í fyrsta leik og er búinn að vera góður í gegnum allt tímabilið. Mistökin eru mjög fá og ef þau gerðust þá reyndum við að skoða þau og núlla þau út, spá í þeim og reyna koma í veg fyrir að þau gerðust aftur."
Hlutir sem gleymist að meta
Anton talar sjálfur um leikinn gegn ÍA, það sé einn af eftirminnilegri leikjunum í sumar.
„Sá leikur og Valsleikurinn úti, hann var stórkostlegur í þeim. Þetta er ekki bara það að hann hafi varið einu sinni eða tvisvar stórkostlega í einhverjum leikjum. Frammistaðan yfir allt tímabilið var svo góð. Hann á að standa hátt og gripa inn í á réttum augnablikum og það er oft hlutur sem gleymist að meta."
„Það voru markmenn sem vörðu fleiri skot en Anton í sumar en hann var með hæstu prósentuna af vörðum skotum. Það er samspil af því að vörnin var góð og fengum færri færi á okkur, en þegar skotin komu þá var Anton klár. Það þarf mikinn styrk að spila í liði sem fær á sig fá færi, það er kannski auðveldara að halda einbeitingu ef það er alltaf verið að sækja og skjóta á þig."
Töluðu saman í þrjá klukkutíma
Anton átti ekki gott tímabil 2023 og viðurkennir það sjálfur. Fann Halli að hann þyrfti að vinna með sjálfstraust markmannsins síns?
„Hann var mjög vel innstilltur frá fyrstu æfingu. Ég er hreinskilinn með að áður en við byrjuðum þá vissi ég ekkert út í hvað ég var að fara. Ég hafði samband við þá Anton og Brynjar, Brynjar var erlendis og ég ræddi við hann í síma, en hitti Anton."
„Samvinnan með Antoni byrjaði strax vel. Ég hafði aldrei talað við hann en við settumst niður og töluðum saman í þrjá klukkutíma. Kynntumst hvor öðrum, það er margt í hans lífi sem er örugglega svipað og í mínu hvað varðar börn og alls konar, gengið í gegnum svipaða hluti. Ég var nýbúinn að vera spila, hafði fengið minn skerf af gagnrýni í gegnum tíðina, það voru alls konar hlutir sem við gátum talað um. Ég veit ekki hvort hann hafi fundið eitthvað í því, en það vantaði allavega ekkert upp á sjálfstraustið þegar við fórum út á völlinn."
„Honum hafði verið lýst sem rólegum náunga sem héldi sig til hlés í klefanum og væri ekki nægilega mikill karakter. Þú þarft ekki að vera hávær inni í klefa eða úti á velli til að vera góður karakter. Hann er eldklár, vel gefinn og að heyra hvernig hann talar um fjölskylduna sína og aðra sýnir hvaða karakter hann hefur að geyma. Hann lætur verkin tala og eftir erfitt tímabil í fyrra, þá sýndi hann mikinn karakter að koma til baka í ár."
„Hann á allt hrós skilið, það var aldrei yfirlýst markmið að bæta einhverja prósentur eða halda oftast hreinu, en þessir hlutir komu sjálfkrafa með því að æfa og greina það sem við vorum að gera frá degi til dags. Við náðum að fínstilla smáatriðin. Þeir báðir eiga allt hrós skilið hvernig þeir tóku mér og gerðu mitt starf miklu auðveldara fyrir vikið," segir Halli sem verður áfram markmannsþjálfari Breiðabliks á næsta ári.
Athugasemdir