Tel vill helst fara til Man Utd - Annað tilboð í Mitoma - Watkins opinn fyrir Arsenal
   fös 31. janúar 2025 21:54
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Þungavigtarbikarinn: Breiðablik sigurvegari - Óli Valur skoraði gegn gömlu félögunum
Mynd: Breiðablik
Stjarnan 2 - 3 Breiðablik
0-1 Óli Valur Ómarsson ('46 )
0-2 Höskuldur Gunnlaugsson ('52 , víti)
1-2 Benedikt V. Warén ('66 )
2-2 Emil Atlason ('77 )
2-3 Höskuldur Gunnlaugsson ('87 )
2-4 Ágúst Orri Þorsteinsson ('93 )
Lestu um leikinn

Breiðablik er Þungavigtarbikarmeistari eftir sigur á grönnum sínum í Stjörnunni en leikurinn fór fram í Miðgarði í kvöld.

Bæði lið fengu tækifæri til að skora í fyrri hálfleik. Óli Valur Ómarsson gekk til liðs við Breiðablik í vetur en hann er fyrrum Stjörnumaður. Hann var í fremstu víglínu í kvöld og komst í dauðafæri eftir stundafjórðung en Árni Snær Ólafsson varði frá honum.

Þá fékk Emil Atlason tvö gullin tækifæri til að skora en Anton Ari Einarsson vel á verði.

Seinni hálfleikurinn var varla kominn af stað þegar Óli Valur kom boltanum í netið. Blikar tóku miðju, Andri Rafn Yeoman átti langa sendingu á Óla sem var kominn einn í gegn og kom Blikum yfir gegn gömlu félögunum.

Breiðablik fékk vítaspyrnu stuttu síðar sem Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr og tvöfaldaði forystu Blika.

Stjarnan komst inn í leikinn og Benedikt Warén, fyrrum leikmaður Blika, minnkaði muninn eftir rúmlega klukkutíma leik. Það var síðan markahrókurinn Emil Atlason sem jafnaði metin.

Þegar skammt var eftir af leiknum komst fyrirliði Blika, Höskuldur Gunnlaugsson, í gegn og vippaði snyrtilega yfir Árna, sem var kominn aðeins of langt út úr markinu, og tryggði Blikum sigurinn. Ágúst Orri Þorsteinsson innsiglaði sigurinn í uppbótatíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner