
Valsarar eru á toppi Bestu deildarinnar, komnir í bikarúrslit og eiga möguleika á því að fara áfram í Evrópu.

'Það er mjög góð liðsheild í liðinu í ár, það er rétt, en ég myndi líka segja að stóri munurinn sé sá að við erum með mjög marga góða leikmenn í ár og hægt að gera breytingar.'
„Leikurinn leggst bara fínt í mig, þetta er hörku lið, við sáum það úti; auðvitað vorum við að spila á móti þeim á þeirra heimavelli og með þeirra aðdáendur á bak við sig, en maður sá að þetta er mjög alþjóðlegt lið og við vitum að þeir eru búnir að spýta miklum peningum í þetta. Þetta er í raun körfuboltafélag sem ákvað að taka fótboltann aðeins alvarlega núna og settu saman í raun nýtt lið fyrir þetta tímabil. Þetta er hörku lið og góð áskorun fyrir okkur," segir Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Vals, við Fótbolta.net.
Í kvöld, klukkan 18:30, tekur Valur á móti Kauno Zalgiris í seinni leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Staðan í einvíginu er 1-1 eftir leik liðanna í Litháen.
Í kvöld, klukkan 18:30, tekur Valur á móti Kauno Zalgiris í seinni leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Staðan í einvíginu er 1-1 eftir leik liðanna í Litháen.
„Við erum alveg klárlega sáttir við úrslitin í fyrri leiknum miðað við hvernig hann spilaðist. Við vorum aðeins „under the gun" stóran hluta leiksins, gerðum það vel og höfum gert það vel á þessu tímabili. Á þeim tímapunktum sem við höfum þurft að þjást þá höfum við varist vel og gefið lítið af færum á okkur. Við vorum svolítið mikið að elta og að fara með 1-1 á okkar heimavöll er mjög gott."
„Ég myndi gera ráð fyrir því að við munum sækja aðeins meira en í fyrri leiknum. Það er oft sagt að það sé mikill kostur að vera á gervigrasinu sínu, en málið er að þeir spila líka sína fyrstu leiki úti á gervigrasi. Þeir vita því alveg hvernig það virkar. En við þekkjum það samt betur og ættum vonandi að geta nýtt okkur það."
Hólmar hefur mest spilað með Markus Nakkim sér við hlið á þessu tímabili, en það hefur ekki verið raunin í síðustu tveimur leikjum.
„Liðið kemur bara í ljós á morgun, við fáum liðið oftast á leikdegi. Það sem hefur verið aðeins öðruvísi þetta tímabil, samanborið við síðustu tímabil hjá Val, er það að við erum með virkilega breiðan og góðan hóp. Við höfum lent í nokkrum áföllum í sumar sem við höfum getað dílað vel við. Þeir sem hafa komið inn hafa skilað virkilega góðu verki. Við erum með stóran hóp og hægt að gera alls konar breytingar án þess að það skaði liðið," segir Hólmar en viðtalið við hann var tekið í gær.
Er það stóri munurinn milli ára, breiddin? Ég hjó eftir því að Kristinn Freyr talaði um í viðtali eftir Víkingsleikinn að liðsheildin væri betri en hún hefur verið, ertu sammála því?
„Ég er sammála því líka, en það er alltaf spurningin hvort kemur á undan. Í þeim liðum sem ég hef verið í, þar sem gengið hefur vel og leikir vinnast, þá er oftast góð liðsheild. Það er því spurning hvort kemur á undan. Það er mjög góð liðsheild í liðinu í ár, það er rétt, en ég myndi líka segja að stóri munurinn sé sá að við erum með mjög marga góða leikmenn í ár og hægt að gera breytingar. Menn geta dottið út án þess að höggið sé mikið. Það er eitthvað sem lið sem keppir á öllum vígstöðvum þarf að hafa, það er fullt af leikjum og nóg að gerast. Þú þarft að geta róterað aðeins."
Hverju þurfa Valsarar að ná fram í leiknum til þess að vinna?
„Við þurfum að vera aðeins meira með boltann til þess að geta skapað aðeins fleiri færi, ég vona að það verði upp á teningnum. Þetta er gömul tugga, en það hefur áhrif að við spilum á gervigrasi sem við erum vanir að nota á hverjum degi, undirlag sem við þekkjum vel. Við þurfum að vera aðeins djarfari, pressa þá aðeins meira og vera Valsliðið sem við höfum verið á heimavelli í sumar. Þá held ég að við getum náð góðum úrslitum."
Hversu mikilvægt er að fá öflugan stuðning úr stúkunni?
„Það skiptir öllu, maður hefur séð það undanfarna leiki, fengum frábæran stuðning í Víkinni og aftur núna um daginn, samt er júlí og fólk í sumarfríi. Það er virkilega gaman að sjá og góð stemning að myndast," segir fyrirliðinn.
Sigurliðið í leiknum í kvöld mætir sigurliðinu úr einvígi finnska liðsins HJK og búlgarska liðsins Arda. Staðan í því einvígi er jöfn, 0-0, eftir fyrri leikinn í Búlgaríu.
Athugasemdir