Afturelding hefur nælt sér í öflugan markvörð fyrir komandi tímabil en Kristján Hjörvar Sigurkarlsson er kominn til félagsins frá Kára á Akranesi.
Kristján Hjörvar er tvítugur og uppalinn í Val en hann lék sinn fyrsta leik með félaginu í Bestu deildinni árið 2022.
Hann hefur leikið með Kára síðustu ár og spilað þar 47 leiki í deild- og bikar.
Markvörðurinn skrifaði undir tveggja ára samning við Aftureldingu, en hann segir félagið vera með háleit markmið á komandi tímabili.
„Ég er ekkert eðlilega ánægður að hafa samið við toppklúbb eins og Aftureldingu. Þetta er alvöru stemnings klúbbur! Það eru bara spennandi tímar framundan og fólk í Mosó má vera spennt fyrir tímabilinu í ár því við ætlum beint upp í Bestu deildina,“ sagði Kristján við undirskrift.
Jökull Andrésson stóð í marki Aftureldingar síðasta sumar en hann samdi við FH eftir tímabilið. Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, sagði við Fótbolta.net að félagið væri vel sett í markvarðarstöðunni en að það vantaði aðeins mann í samkeppni við Arnar Daða Jóhannesson og er þeirri leit nú formlega lokið.
Athugasemdir


