Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   mán 09. maí 2011 14:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 2. umferð: Sleppi veðmáli svo ég fái að vera uppi á topp
Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
,,Það var gott að ná tveimur mörkum og þremur stigum. Þetta var jákvætt hjá okkur," sagði Albert Brynjar Ingason leikmaður Fylkis við Fótbolta.net í dag. Albert Brynjar skoraði bæði mörk Fylkis í 2-1 sigrinum á ÍBV í fyrradag og hann er leikmaður umferðarinnar á Fótbolta.net.

,,Það er mjög mikilvægt að ná þessum sigri eftir vonbrigðin í fyrsta leik. Við erum með okkar markmið og þetta er á réttri leið núna. Núna er mikilvægt að halda haus og sýna smá stöðugleika, þá erum við til alls líklegir."

Albert Brynjar náði að opna markareikninginn sinn í sumar með mörkunum í Eyjum.

,,Það er gott andlega að ná að setja mörk strax í byrjun móts, annars fer maður að hugsa um þetta ef þetta fer ekki að detta inn."

Á síðasta tímabili skoraði Albert Brynjar samtals átta mörk hann var þá í veðmáli við Ólaf Þórðarson þjálfari Fylkis um það hvort hann myndi ná að skora ellefu mörk á tímabilinu.

,,Ég skulda honum ennþá síðan í fyrra. Ég skulda honum drykki en ef ég hefði unnið hefði hann þurft að hlaupa stífluhringinn nakinn," sagði Albert um veðmálið en hann skoraði einungis eitt mark eftir Verslunarmannahelgi í fyrra.

,,Ég meiddist aftan í læri og missti af 4-5 leikjum og svo var Óli orðinn stressaður þannig að ég var orðinn miðjumaður í nokkrum leikjum. Ég held ég sleppi veðmáli núna svo ég fái að vera uppi á topp."

Í fyrra enduðu Fylkismenn í níunda sæti en stefnan er sett mun ofar í Árbænum í ár.

,,Sumarið í fyrra var algjör vonbrigði og við vitum alveg að við getum betur. Það var einbeitingarleysi í fyrra, ég veit ekki hvar við hefðum endað í deildinni ef bara fyrri hálfleikur hefði verið spilaður. Við mættum stundum ekki með hausinn rétt skrúfaðan í síðari hálfleik og það er eitthvað sem við eigum að geta bætt og þá eigum við að geta gert miklu betur en í fyrra."

Næsti leikur Fylkismanna er á miðvikudaginn. Þá koma Framarar í heimsókn í Árbæinn en þeir eru stigalausir eftir fyrstu tvo leiki og munu væntalega selja sig dýrt á miðvikudag.

,,Þessi leikir eru alveg nógu klikkaðir fyrir, það er alltaf einhver æsingur hjá okkur og sérstaklega núna þegar þeir eru stigalausir. Þeir koma dýrvitlausir til leiks og við þurfum að mæta því, við erum ekki þekktir fyrir eitthvað annað en að mæta af hörku og við gerum það," sagði Albert.

Sjá einnig:
Leikmaður 1. umferðar - Orri Freyr HjaItalín (Grindavík)
banner
banner
banner