Mikið ber á milli Man Utd og Roma í viðræðum um Zirkzee - Chelsea hyggst styrkja miðsvæðið og er orðað við Mainoo og Wharton
   fös 02. september 2011 21:09
Magnús Már Einarsson
Eiður Smári: Verðum að reyna að þjappa okkur saman í andlitinu
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
,,Þetta er á síðustu mínútunum, menn eru búnir að leggja mikið á sig og gefa sig alla í þetta þá er svekkjandi að enda þetta svona," sagði Eiður Smári Guðjohnsen í viðtali við Hörð Magnússon á Stöð 2 Sport eftir 1-0 tap Íslands gegn Noregi í kvöld.

,,Við vorum búnir að verjast vel. Við sköpuðum ekki mikið fram á við en það helst í hendur þegar við ætlum að vera þéttir baka til. Á köflum hefðum við mátt vera rólegri á boltanum þar sem þeir voru ekki að pressa mikið þannig séð. Þetta einkennir okkur svolítið undanfarið, þetta fellur ekki með okkur og því miður eru úrslitin eftir því."

Eiður Smári fékk ágætis færi í síðari hálfleiknum en hann skallaði þá framhjá eftir að Hjörtur Logi Valgarðsson átti góða fyrirgjöf.

,,Ég náði ekki að lyfta mér nógu hátt í boltann. (Brede) Hangeland fyrir framan mig blindaði mig kannski aðeins þannig að boltinn kom snöggt á mig. Augljóslega hefði ég átt að getað gert betur."

Ísland er eftir úrslitin í kvöld sem fyrr með eitt stig í undankeppninni en næsti leikur er gegn Kýpur á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöld.

,,Við verðum að reyna að þjappa okkur saman í andlitinu og koma okkur yfir svekkelsið. Það er hægt að taka margt jákvætt úr leiknum en því miður sitjum við eftir með sárt ennið eftir enn eitt tapið. Það eru ekki margir leikir eftir til að rétta úr kútnum en við þurfum að gera okkar besta á þriðjudaginn," sagði Eiður í viðtali við Stöð 2 Sport.
banner