Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   lau 07. janúar 2012 11:00
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Um meint „hatur“ Fótbolta.net gagnvart Liverpool
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Fótbolti.net hefur reynt að fjalla um Suarez-Evra málið af fagmennsku og hlutleysi.
Fótbolti.net hefur reynt að fjalla um Suarez-Evra málið af fagmennsku og hlutleysi.
Mynd: Getty Images
Suarez og Evra í leiknum umtalaða.
Suarez og Evra í leiknum umtalaða.
Mynd: Getty Images
Sjaldan hefur eitt tiltekið mál ótengt fótbolta í ensku úrvalsdeildinni fengið jafn mikla athygli og meintir kynþáttafordómar Luis Suarez í garð Patrice Evra í viðureign Liverpool og Manchester United. Liggur nánast við að maður þurfi að fara aftur til kung-fu sparks Eric Cantona gagnvart stuðningsmanni Crystal Palace til að finna eins umdeildan atburð.

Umfjöllun Fótbolta.net um erlenda knattspyrnu hefur ávallt gengið út á það að finna það fréttnæmasta frá viðkomandi landi og birta það á síðunni í íslenskri þýðingu. Suarez-Evra málið var engin undantekning á því, enda er það bara staðreynd að erlendir fjölmiðlar hafa gert það að sínu aðal umfjöllunarefni undanfarnar vikur og því eðlilegt að Fótbolti.net geri slíkt hið sama. Vissulega hefðum við getað ákveðið að líta framhjá allri umfjöllun um þetta mál, en hefðum við þá ekki verið að bregðast lesendum okkar? Hefðum við þá ekki verið að bregðast gildum okkar, sem ganga út á það að birta það fréttnæmasta sem er í gangi hverju sinni?

Þó virðist sem að umfjöllun okkar um þetta tiltekna mál varðandi Luis Suarez hafi misboðið ákveðnum stuðningsmönnum Liverpool. Hafa þeir haldið því fram að Fótbolti.net sé ekki hlutlaus í umfjöllun sinni um málið, jafnvel gengið svo langt að segja að þessi stærsti íþróttavefur Íslands hati Liverpool. Að halda slíku fram er að sjálfsögðu slík endemis þvæla að það er varla svaravert, en þó finnst mér ég knúinn að varpa ákveðnu ljósi á þetta mál.

Það er ekki Fótbolta.net að kenna að Luis Suarez hafi verið ákærður fyrir kynþáttafordóma. Það er ekki Fótbolta.net að kenna að hann hafi verið fundinn sekur og dæmdur í átta leikja bann. Það er ekki okkur að kenna að Liverpool hafi sent frá sér umdeildar yfirlýsingar um málið, sem við einungis þýddum. Það er heldur ekki okkur að kenna að margir knattspyrnusérfræðingar hafi kosið að tjá sig um málið og að þeir séu flestir ósammála nálgunina sem Liverpool tók til að verja Suarez.

Hefðum við átt að sleppa því að birta yfirlýsingarnar, bara af því að okkur fannst þær ekki nógu gáfulegar? Hefðum við átt að sleppa því að birta viðtöl við viðurkennda sparkspekinga sem hafa eitthvað til málanna að leggja, og eru ósáttir með hegðun Liverpool og Suarez í málinu? Hefðum við kannski bara átt að sleppa því að segja frá þegar hann var dæmdur í átta leikja bann?

Við höfum birt viðtöl við menn sem hafa gagnrýnt Liverpool, vissulega, enda eru margir þeirrar skoðunnar að þeir hafi hegðað sér illa í þessu máli og haldið vitlaust á spilunum. Það er ekki okkar að dæma hvort að svo sé, en vissulega ber okkur skylda til að fjalla um báðar hliðar málsins. Þess vegna er vert að taka það fram að við birtum allar yfirlýsingar Liverpool um sakleysi hans, viðtal við lögmann hans, móður hans, hann sjálfan, Gustavo Poyet, Kenny Dalglish og svo mætti áfram telja – öll til stuðnings Suarez. Hvernig það getur talist Liverpool-hatur og hlutdrægni er mér fyrirmunað að skilja.

Ég las frábæra grein á Telegraph í gær með fyrirsögnina “Liverpool fans' raging at anyone daring to criticise Luis Suarez or the club is typical of angry times we live in.“ Þar segir greinarhöfundurinn Paul Hayward meðal annars: „Nú þegar storminn í kringum Suarez fer að lægja (þar til í leiknum gegn Man Utd 11. febrúar) fer maður að taka eftir gífurlegri reiði Liverpool manna sem nota Twitter, bloggsíður og aðrar vefsíður til að drulla yfir þá sem dirfast að gagnrýna leikmanninn eða meðhöndlun Liverpool á þessu máli.“ (Þýtt eftir bestu getu, greinina má sjá hér.)

Ég gæti varla orðað þetta betur sjálfur. Mér virðist sem að einhverjir stuðningsmenn Liverpool, alls ekki allir, séu komnir í einhvern hálf-brjálæðislegan varnargír þar sem þeir bregðast með bræði við öllum þeim sem kaupa það ekki að Luis Suarez sé engill og að Liverpool séu einungis að styðja sinn mann.

Málsvörn Liverpool var að mínu mati ansi sérstök, það að það sé í lagi að segja „negro“ í Úrúgvæ réttlætir það ekki að maður sem hefur búið í sex ár í Evrópu noti orðið gagnvart annarri manneskju. Ef að „nigger“ væri samþykkt orð hérlendis gætum við samt ekki farið til Bandaríkjanna og kallað næsta svarta mann „nigger“. (Ef þú prófar það, endilega láttu mig vita hvernig gekk)

Nú er ég samt kominn út fyrir efnið. Það sem mestu máli skiptir er að menn þurfa aðeins að hugsa sinn gang áður en þeir fara að hrauna yfir fréttamiðil fyrir það eitt að sinna sínu starfi, sem er jú að miðla fréttum til lesenda. Stór hópur fólks treystir á Fótbolta.net til að færa sér fréttir úr íþróttinni sem það elskar og okkur ber skylda að sinna því hlutverki. Ef frétt er nógu stór til að birtast í öllum stærstu íþróttafjölmiðlum heims, þá er sú frétt mjög líklega nógu merkileg til að vera birt á Fótbolta.net. Svo að mér leyfist að sletta aðeins, þá verð ég bara að segja: „Don‘t shoot the messenger.“

Þó að það sé málinu óviðkomandi vil ég samt taka það fram að framkvæmdastjóri Fótbolta.net er stuðningsmaður Liverpool sem og annar tveggja ritstjóranna. Það þýðir ekki að við getum bara lokað augunum gagnvart öllu því sem er í gangi í þessu máli, bara af því að fréttin gæti hugsanlega haft slæm áhrif á félagið sem við elskum.

Þó að þessi umræða sé að verða þreytt, þá verðum við að reyna að halda henni á málefnalegu nótunum. Fótbolti.net birtir fréttirnar og það er undir hverjum og einum komið hvort að hann vill lesa þær. Ég hvet stuðningsmenn Liverpool sem saka okkur um hlutdrægni að skrifa „Suarez“ í leitarvélina hjá okkur og sjá hvort að allar fréttirnar um þetta mál séu einhliða.

Góða helgi,
Alexander Freyr Einarsson
Fréttaritari á Fótbolta.net og dyggur stuðningsmaður Liverpool
banner
banner