Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
   fim 26. janúar 2012 08:00
Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Minning um upphafsárin í Vesturbænum
Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
Mynd: Eiríkur Jónsson
Mynd:
Veturinn 1985 mætti í vesturbæinn drengur af Skaganum. Hann var með sítt að aftan, skegghýung, í síðum frakka og með svarta skjalatösku. Þetta var Sigursteinn Gíslason. Steini, eins og við kölluðum hann. Hann var fluttur í vesturbæinn.

Steini hóf strax að mæta á æfingar hjá okkur í 2.flokki KR. Hann hafði fram að því leikið upp alla yngri flokka með ÍA. Við vissum vel hversu öflugur leikmaður Steini var, enda búnir að spila margoft gegn honum. Það var því mikill fengur fyrir okkur að fá hann inn í okkar annars sterka og samrýmda hóp. Og það var ekki eins og hann væri að koma á æfingu hjá okkur í fyrsta skipti þegar hann mætti. Frá fyrsta degi talaði hann mikið á æfingum og stjórnaði mönnum í kringum sig. Hann var aldrei feiminn og lét menn heyra það ef þeir voru ekki að standa sig. Hann hafði gríðarlegt keppnisskap og vildi alltaf vinna. Alltaf var hann hvetjandi og þannig fékk hann menn til að taka á hlutunum með sér. Karakterseinkenni Steina komu þarna strax í ljós. Einkenni sem fylgdu honum allt til æviloka.

Með Steina fremstan í flokki urðum við bæði Íslands og Bikarmeistarar í 2.flokki sumarið 1986. Liðið sigraði alla leiki Íslandsmótsins nema einn sem endaði með jafntefli.

Utan æfingatímanna vorum við allir miklir félagar og oftar en ekki, eins og gengur og gerist á þessum aldri, lyftum við okkur upp við tækifæri. Steini var alltaf klár, líkt og við hinir reyndar líka, og alltaf var hann í frakkanum, með síða hárið og mottuna, en skjalatöskuna geymdi hann fyrir rútuferðirnar og ferðalögin.

Á árinu 1987 vorum við margir úr þessum hóp farnir að æfa með meistaraflokk KR þó svo við vorum enn á 2.flokks aldri. Margir okkar fengu tækifæri til að spila með mfl. og því spiluðu fæstir okkar leikina með 2.fl. Fókusinn var kominn á mfl. og þar lék Steini fyrsta mfl.leik sinn er hann kom inná í Íslandsmótinu gegn Keflavík á KR-vellinum. Steini tók þátt í 5 leikjum með KR á Íslandsmótinu þetta árið. Eftir þetta keppnistímabil flutti Steini aftur heim á Skaga og hóf að leika með þeim að nýju keppnistímabilið 1988.

Þrátt fyrir að við höfum hér stiklað á stóru varðandi feril Steina á þessum árum að þá héldust góð tengsl okkar í milli alla tíð. Steini kom til baka til KR haustið 1998 og lék þar í nokkur ár með frábærum árangri, áður en hann tók að sér þjálfun. Þegar hann kom til baka var Mottan farinn, frakkinn kominn í endurvinnsluna og hárið styttra.

Undanfarin ár höfum við félagarnir verið saman í innanhússfótbolta, mánudagsboltanum. Steini var alltaf mættur og rak okkur áfram. Þó svo að eitthvað var farið að hægast á mönnum að þá var hann alltaf á útopnu og vildi sigra hvern einasta leik. Hann gafst aldrei upp. Hvíta liðið sem státar af eigandanum sem jafnan er þjálfari og aðstoðarþjálfaranum, voru því fljótir að velja Steina í Hvíta liðið. Hvíta liðið með Steina innaborðs var nánast ósigrandi þó svo einstaka sinnum að Svartir grísuðu á sigur. Þegar veikindi Steina fóru að hafa þau áhrif að hann gat ekki mætt á æfingar fór verulega að halla undan fæti Hvíta liðsins.

Steina verður sárt saknað af öllum sem fengu að kynnast honum. Betri dreng er erfitt að finna. Hann kom alltaf til dyranna eins og hann var klæddur og var samkvæmur sjálfum sér. Hann sagði alltaf sína skoðun og hlífði engum. Hann stóð fast á sínu og erfitt var að vinna hann í rökræðum, alltaf átti hann síðasta orðið.

Steini tók veikindum sínum sem enn einu verkefninu í sínu lífi. Hann barðist hetjulegri baráttu allt til síðasta dags.

Eftir lifir minning um góðan dreng.

Við vottum Önnu Elínu, Magnúsi, Unni og Teit okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi guð vera með ykkur.

Virðingarfyllst
Rúnar Kristinsson, Guðni Hrafn Grétarsson og Steinar Ingimundarson

Sjá einnig:
Himnasending í Efra-Breiðholtið - Óttar Bjarni Guðmundsson
Viðurkenndur afbragðsmaður - Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur - Logi Ólafsson
Þakklæti! - Guðmundur Benediktsson
Sigurvegari af Guðs náð - Ólafur Adolfsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner