Heimild: BBC
Var á reynslu hjá Keflavík 2004
Fáir leikmenn eiga jafn fjölbreyttan feril og markvörðurinn Lutz Pfannenstiel sem lagði skóna á hilluna á síðasta ári. Þessi 38 ára gamli Þjóðverji afrekaði það á ferli sínum að spila með 25 félögum í öllum sex heimsálfunum sem fólk býr í.
Auk þess að spila í Þýskalandi spilaði Pfannenstiel á ferli sínum með félögum í Brasilíu, Bandaríkjunum, Englandi, Nýja-Sjálandi, Singapúr, Suður-Afríku, Finnlandi, Malasíu, Möltu, Belgíu, Kanada, Namibíu, Noregi, Armeníu og Albaníu.
Pfannetiel hefur komið við á fleiri stöðum en hann var meðal annars á reynslu hjá Keflvíkingum í byrjun árs árið 2004.
Fjallað er um feril Pfannenstiel á BBC í þessari viku en eins og gefur að skilja hefur hann margar sögur að segja. Pfannenstiel segir meðal annars frá því þegar hann þurfti að sitja í fangelsi í 101 dag í Singapúr eftir að hafa verið sakaður um að hagræða úrslitum leikja.
,,Ég held að það séu ekki mörg erfiðari fangelsi í heiminum. Ég var að lifa lífinu í Singapúr, ég var módel fyrir Armani, ég var með eigin sjónvarpsþátt og fótboltinn gekk vel en skyndilega vaknaði ég í litlum fangaklefa og allt var í rugli hjá mér," sagði Pfannenstiel.
,,Þetta var mjög skrýtið því ég var sakaður um að hafa spilað of vel í tveimur sigurleikjum og í jafnteflisleik þar sem ég var valinn maður leiksins. Ef að dómarinn segir í rétti að þú hafir spilað betur en venjulega þá er það ekki eðlilegt."
,,Ég komst á endanum út því að engir peningar fundust sem sönnunargagn. Ég komst út eftir 101 dag og varð betri persóna fyrir vikið. Þetta var erfiðasti tími lífs míns en líka sá tími þar sem ég hef lært mest."
Pfannenstiel hneig einnig niður í leik á Englandi árið 2002 þegar hann hætti að anda og á tímabili var óttast að hann væri látinn.
,,Lungu min féllu saman, ég var ekki lengur með púls og ég var þrívegis úrskurðaður látinn á fótboltavellinum. Ég vaknaði hins vegar á spítalanum þremur tímum síðar," sagði Pfannenstiel.
Í dag starfar Pfannenstiel sem njósnari hjá Hoffenheim í Þýskalandi en hann hefur einnig mörg önnur járn í eldinum. Til að mynda hefur hann tekið þátt í raunveruleikaþáttum í sjónvarpi auk þess sem hann er búinn að stofna samtök sem berjast gegn gróðurhúsaáhrifum.
Athugasemdir


