Man Utd á eftir Bellingham - West Ham og Sevilla vilja Zirkzee - Gordon til Liverpool?
   sun 26. október 2025 11:30
Brynjar Ingi Erluson
Mikill fjandskapur á milli Conte og Lautaro - „Þú ert að skíta í buxurnar!“
Antonio Conte og Lautaro Martínez
Antonio Conte og Lautaro Martínez
Mynd: EPA
Stórfurðulegt atvik átti sér stað í Seríu A á Ítalíu í gær er Napoli tók á móti Inter.

Antonio Conte var á hliðarlínunni hjá Napoli, en hann gerði liðið að deildarmeisturum á síðustu leiktíð. Áður þjálfaði hann Inter og þekkir því enn nokkra leikmenn sem eru í leikmannahópnum.

Lautaro Martínez er einn þeirra en hann spilaði stórt hlutverk í Inter-liði Conte sem vann deildina árið 2021.

Þeim semur þó ekkert sérstaklega vel og mátti sjá það í leik Napoli og Inter í gær.

Samskipti þeirra náðust í beinni útsendingu á leiknum, en þar segir Martínez við Conte: „Þú ert að skíta í þig úr hræðslu!“ sagði Argentínumaðurinn við fyrrum lærimeistara sinn og fylgdu ósæmileg látbrögð með í kaupbæti.

Conte er frekar þurr á manninn og hefur í gegnum tíðina ekki verið þekktur fyrir að vera í neitt sérstaklega miklu sambandi við leikmenn sína.

Fyrir nokkrum árum lenti Conte og Martínez saman hjá Inter, en gerðu síðan lítið úr því í myndbandi þar sem settur var upp gamnislagur. Raunveruleikinn var líklega sá að þeim líkaði ekkert sérstaklega vel við hvorn annan eins og sást í leiknum í gær.

Ítalski þjálfarinn svaraði Martínez fullum hálsi á hliðarlínunni: „Reyndu að skora. Skoraðu þarna skítseiðið þitt!“ .

Hressandi samskipti en eftir leikinn var Conte spurður út í þau. Ítalinn tjáði sig lítið um þau og sagðist því miður ekki þekkja Martínez nóg til þess að dæma hann.

„Lautaro er stórkostlegur leikmaður, en ég hef ekki fengið tækifærið til þess að kynnast manneskjunni nógu vel. Ég óska honum alls hins besta. Það er allt og sumt,“ sagði Conte sem fagnaði 3-1 sigri á sínum gömlu félögum og situr Napoli nú á toppnum með 18 stig en Inter í 3. sæti með 15 stig.


Athugasemdir
banner
banner