Í kvöld mættust landsbyggðarliðin ÍA og KA í miklum baráttuleik á skipaskaga þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi með tveimur mörkum gegn einu. Mörk ÍA skoruðu Gunnlaugur Jónsson og Haraldur Ingólfsson úr vítaspyrnu en mark gestanna í KA skoraði Atli Sveinn Þórarinsson.
Liðin mættust við frekar erfiðar aðstæður í kvöld, rigning allan leikinn og völlurinn mjög þungur enda bar leikurinn þess merki í byrjun þar sem liðin voru að reyna að þreifa fyrir sér á vellinum. Fyrsta mark leiksins kom þó strax á 7. mínútu leiksins þegar Gunnlaugur Jónsson hamraði knöttinn í markið með skalla eftir mjög góða hornspyrnu frá Kára Steini Reynissyni. Skagamenn héldu áfram að sækja af krafti í fyrri hálfleik og áttu þeir fjölda hálffæra og skota utan af velli en náðu ekki oft að skapa sér hættuleg marktækifæri eða valda markverði gestanna teljandi vandræðum, KA átti ekki margar sóknir en ein fárra sem sköpuðu hættu kom um miðjan fyrri hálfleik þegar Þórður Þórðarson varði vel skot Elmars Dan Sigþórssonar úr þvögu sem hafði myndast í vítateig ÍA, einnig átti Örn Kató Hauksson gott skot utan af velli sem fór framhjá stöng ÍA seint í fyrri hálfleik. Heimamenn léku einstaklega vel í fyrri hálfleik, góðar sendingar milli leikmanna og leikmenn börðust af miklum krafti, gestirnir áttu í raun í vök að verjast, sterk vörn ásamt öflugri miðju héldu heimamönnum í skefjum þrátt fyrir að þeir réðu gangi leiksins.
ÍA virtist koma til leiks í síðari hálfleik með allt annað hugafar en hafði verið í þeim fyrri, það var ekki lengur sama baráttan í liðinu og virtist á köflum sem menn héldu að sigurinn kæmi af sjálfu sér í kjölfar góðs fyrri hálfleiks. Gestirnir nýttu sér þetta ástand til fulls, komust í takt við leikinn og á 54. mínútu skallaði Atli Sveinn Þórarinsson knöttinn í markið eftir aukaspyrnu frá Dean Martin. Eftir markið fóru heimamenn að rumska eftir mjög langan blund framan af seinni hálfleik, aukin barátta fór að sjást hjá leikmönnum og sigurvilji fór að sjást eftir tvö klúðursjafntefli í upphafsleikjunum á heimavelli. Stuttu eftir jöfnunarmarkið komst Julian Johnson í úrvalsfæri þegar hann fékk sendingu frá Pálma Haraldssyni en hann lét Sandor markvörð KA verja frá sér, frákastinu náði Garðar B. Gunnlaugsson en varnarmaður KA náði að bjarga skoti hans á marklínu. Um miðjan seinni hálfleik var gerð skipting hjá heimamönnum þegar Ellert Jón Björnsson kom inn á í stað Julians Johnson, sú skipting átti eftir að bera ávöxt því nokkrum mínútum síðar eða á 72. mínútu átti Ellert sendingu á Kára Stein inn í vítateig þar sem Óli Þór Birgisson braut klaufalega af sér og réttilega dæmd vítaspyrna. Úr spyrnunni skoraði síðan Haraldur Ingólfsson, eftir markið héldu heimamenn áfram að sækja og áttu góðar sóknir sem ekki náðist að reka endahnútinn á, Ellert Jón og Garðar fengu góð færi en voru óheppnir að nýta þau ekki. Á 86. mínútu var síðan Hreini Hringssyni vísað af leikvelli með tvær áminningar þegar hann keyrði af fullum krafti inn í Þórð Þórðarson markvörð ÍA, áminning var réttilega gefin en jafnvel hefði mátt vísa honum af velli með beint rautt enda var þetta fólskulegt leikbrot. Þórður Þórðarson átti síðan síðustu orðin í leiknum þegar hann varði fyrst meistaralega skot utan af velli frá Ronni Hartvig og loks þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar hann varði glæsilega aukaspyrnu Pálma Rafns Pálmasonar rétt fyrir utan vítateig. Með þeirri markvörslu tryggði hann heimamönnum sigurinn 2-1.
ÍA spilaði mjög góðan bolta í fyrri hálfleik, létu knöttinn leika milli manna og spilamennskan var mun betri en í fyrri leikum tímabilsins, baráttan og kraftur voru í fyrirrúmi. Vörnin spilaði leikinn vel í heild og oft reyndi lítið á hana, Gunnlaugur Jónsson og Reynir Leósson spiluðu vel og áttu flesta skallabolta nema þegar markið kom sem var mjög klaufalega gert af varnarmönnum ÍA að gera ekki betur. Þórður Þórðarson átti mjög góðan leik þegar hann þurfti að verja, markvörslur hans undir lok leiksins sýndu og sönnuðu að þar fer besti markvörður úrvalsdeildarinnar í dag. Miðjan hjá liðinu var öflug þar sem Kári Steinn Reynisson og Pálmi Haraldsson áttu enn eina ferðina frábæran leik, öflugir leikmenn sem gefa ávallt allt í leiki og berjast af krafti, Kári Steinn var sívinnandi á miðjunni, átti stoðsendinguna sem gaf fyrra mark ÍA og fékk vítaspyrnuna sem sigurmarkið var skorað úr svo réttilega var hann besti maður leiksins. Ellert Jón Björnsson átti mjög góða innkomu í sínum fyrsta leik í sumar og er kominn tími til að gefa honum meiri tíma í byrjunarliðinu enda fer afburðaleikmaður þar á ferð. Fjarvera Stefáns Þórðarsonar veikti vissulega sóknarmennsku ÍA í dag en Garðar Gunnlaugsson átti mjög góða spretti auk þess sem Grétar Rafn Steinsson barðist eins og ljón frammi með Garðari allan leikinn, fór í alla bolta og sýndi mikinn karakter.
Lið KA sýndi oft á tíðum góða spilamennsku í leiknum, varnarleikurinn var þéttur fyrir og mikil barátta var í leikmönnum liðsins, Matus Sandor varði oft vel í leiknum og þeir Steinn Viðar Gunnarsson, Ronni Hartvig og Óli Þór Birgisson áttu góðan leik í vörninni. Á miðjunni voru Elmar Dan Sigþórsson, Örn Kató Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason sterkir og Pálmi átti oft á tíðum góða spretti. Frammi skapaði Hreinn Hringsson oft usla með hans naut við.
Leikurinn var í heild hin ágætasta skemmtun, mörg færi litu dagsins ljós og mikil barátta var allsráðandi. Gestirnir spiluðu góða knattspyrnu á köflum og hefðu með smáheppni getað náð stigi út úr þessum leik, heimamenn spiluðu fyrri hálfleikinn oft af stakri snilld en í þeim seinni var eins og liðið hefði ekki mætt til leiks í byrjun, fljótlega var þó bætt úr því og spilamennskan var góð eftir það hjá ÍA. Að endingu má síðan minnast á dómara leiksins, Gísla Hlyn Jóhannsson, sem dæmdi leikinn virkilega vel og hafði hann góð tök á þessum leik.
Athugasemdir