Í kvöld mættust tvö stórlið í íslenska boltanum. Skagamenn lögðu leið sína í Árbæinn þar sem topplið Fylkis tók á móti þeim. Fyrir leikinn var ljóst að Fylkismenn myndu ekki ganga heilir til skógar í þessum leik. Eins og kom fram hér á síðunni fyrr í dag þá meiddist Björgólfur Takefusa á æfingu í gær og bætist þá enn við meiðslalista Fylkismanna sem hefur að geyma menn eins og Guðna Rúnar Helgason og Hauk Inga Guðnason. Stöðu Björgólfs í byrjunarliði Fylkis tók Kristinn Tómasson. Ekki kom margt á óvart í liðsuppstillingu Ólafs Þórðarsonar, þjálfara Skagamanna, og kom lið ÍA öflugt til leiks í kvöld.
Það var engum látum fyrir að fara í upphafi leiks. Liðin fóru rólega af stað en bæði lið náðu skoti að marki, þó skapaðist engin hætta í kringum þau skot. Fylkismenn urðu fyrir því áfalli snemma leiks, á 6. mínútu, að missa Helga Val Daníelsson út af. Þorlákur Árnason, þjálfari Fylkismanna, greip þá til þess ráðs að fylla skarð hans með Ólafi Júlíussyni, án þess þó að Ólafi tækist það að ráði þann tíma sem hann lék.
Þegar líða tók á hálfleikinn fóru Skagamenn að ná yfirhöndinni í leiknum. Þeim gekk mun betur að byggja upp sóknir og sóttu þá einkum upp hægri vænginn þar sem Gunnar Þór Pétursson, vinstri bakvörður Árbæinga, var í hálfgerðu basli. Ávallt skapaðist hætta í kringum Stefán Þórðarson og Ellert Jón Björnsson sem börðust ákaft, sérstaklega þó Stefán Þórðarson sem var án efa besti maður vallarins í fyrri hálfleik.
Opin færi voru þó ekki á hverju strái en Grétar Rafn Steinsson fékk ágætis tækifæri á 29. mínútu leiksins inni í teig Fylkismanna, en skaut boltanum yfir. Skagamenn höfðu skömmu áður lent í spjaldahrinu frá Garðari Erni Hinrikssyni, dómara leiksins, þar sem þeir fengu þrjú gul spjöld á einhverjum þriggja mínútna kafla. Bæði Stefán Þórðarson og Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði ÍA, fengu spjald og einnig smellti Garðar einu gulu á æðstaprestinn í herbúðum Skagamanna, Ólaf Þórðarson, fyrir að láta ótæpilega í sér heyra á hliðarlínunni.
Örstuttu seinna náðu Fylkismenn að láta að sér kveða, þá sjaldan sem það gerðist í fyrri hálfleik. Öllum að óvörum náði Eyjólfur Héðinsson þrumuskoti að marki lengst úti á miðjum velli og þurfti Þórður Þórðarson, í marki Skagamanna að hafa sig allan við til þess að sá bolti lægi hreinlega ekki í netinu.
Á 32. mínútu dró til tíðinda. Ellert Jón Björnsson gaf góða sendingu fyrir mark Skagamanna þar sem hamagangur varð í öskjunni. Haraldur Ingólfsson hitti ekki boltann fyrir opnu marki en boltinn barst svo til Grétars Rafns Steinssonar sem að kom Skagamönnum yfir. Staðan því orðin 0-1 fyrir gestina.
Skagamenn héldu áfram að sækja og höfðu erindi sem erfiði því á 45.mínútu bættu þeir við öðru marki Stefán Þórðarson átti prýðilega sendingu inn fyrir vörn Fylkismanna þar sem Haraldur Ingólfsson kom á harðaspretti. Haraldur var kominn einn á móti Bjarna Þórði Halldórssyni, markmanni Fylkismanna, og náði að koma boltanum framhjá honum og í markið. Haraldur lenti þó í harkalegu samstuði við Bjarna í þessum látum og þurfti að yfirgefa völlinn á börum.
Í hálfleik var staðan því 0-2 Skagamönnum í hag og má í raun segja að það hafi verið verðskulduð forysta. Þeir voru einfaldlega mun sterkari og ákveðnari í flesta staði með Stefán Þórðarson sem besta mann. Vörn ÍA var ákaflega föst fyrir í fyrri hálfleik og líka bróðurpartinn af seinni hálfleik og gaf hún fá færi á sér. Fylkismenn sýndu ekki sínar bestu hliðar og áttu í erfiðleikum stóran hluta hálfleiksins.
Seinni hálfleikur var tíðindalítill framan af. Haraldur Ingólfsson þurfti að yfirgefa völlinn og í hans stað kom Guðjón Heiðar Sveinsson. Þá byrjaði úði þegar hálfleikurinn var að hefjast sem var býsna hressandi yfir daufum leik. Skagamenn voru þó áfram sterkari aðilinn og náðu að halda Fylkismönnum í skefjum. Það var því alveg upp úr þurru þegar Fylkismenn minnkuðu muninn á 82. mínútu leiksins. Ólafur Páll Snorrason, sem kom inn á í stað Ólafs Júlíussonar á 67. mínútu og hleypti krafti í Fylkismenn, gaf frábæra sendingu inn fyrir vörn Skagamanna. Sævar Þór Gíslason tók við henni og hélt áfram hlaupinu upp að marki ÍA. Þar gaf hann fyrir og Ólafur Stígsson setti boltann af öryggi í markið. Frábær sókn og virtist sem að allt annað Fylkislið hefði komið inn á völlinn í einni hendingu. Sókn eftir bókinni, allt small.
Það var því alveg ljóst að þær mínútur sem eftir voru, myndu Fylkismenn reyna að nýta til að skora. Nú eygðu þeir stig og það færðist heldur betur líf í leik heimamanna. Ólafur Stígsson átti skot að marki en það dugði skammt. Á 85. mínútu gaf Kristján Valdimarsson sendingu inn í teig ÍA. Þar brýtur Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði ÍA, á Þorbirni Atla Sveinssyni, og Garðar dómari, dæmir vítaspyrnu. Hana tók Finnur Kolbeinsson en Þórður Þórðarson varði spyrnuna. Ólafur Páll Snorrason fylgdi þó vel eftir og náði að koma boltanum í netið. Staðan því orðin jöfn 2-2 og þannig lauk leiknum.
Eftir þennan leik er ekki hægt að segja að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit. Skagamenn börðust og vörðust allan leikinn eins og herforingjar og áttu skilin þrjú stig úr viðureigninni. En það þarf aðeins augnablik til að missa niður forystu og það gerðist í kvöld uppfrá við Árbæjarlaug. Það má þó ekki taka það af Fylkismönnum að þeir eiga heiður skilinn fyrir að ná að jafna leikinn eftir áföll eins og þau að missa Björgólf Takefusa og Helga Val út með engum fyrirvara.
Athugasemdir