Pape Mamadou Faye gekk í raðir BÍ/Bolungarvíkur í gær frá Víking. BÍ/Bolungarvík er á botni 1. deildar með 4 stig að lokinni fyrri umferð.
Pape hætti skyndilega í Víking eftir fjórar umferðir í Pepsi-deildinni og hefur skapast mikil umræða um þá ákvörðun. Ólafur Þórðarson var rekinn frá Víkingi í vikunni. Í vikunni sagði Ólafur í viðtali á Fótbolti.net að Pape hafi viljað koma aftur í Víking. Pape hefur sína hlið á því máli.
Við höfðum samband við Pape, ræddum við hann um félagaskiptin, orð Óla Þórðar í vikunni og meira til.
Pape hætti skyndilega í Víking eftir fjórar umferðir í Pepsi-deildinni og hefur skapast mikil umræða um þá ákvörðun. Ólafur Þórðarson var rekinn frá Víkingi í vikunni. Í vikunni sagði Ólafur í viðtali á Fótbolti.net að Pape hafi viljað koma aftur í Víking. Pape hefur sína hlið á því máli.
Við höfðum samband við Pape, ræddum við hann um félagaskiptin, orð Óla Þórðar í vikunni og meira til.
Lofaði formanni BÍ/Bolungarvíkur að spila fyrir félagið
Pape hafði æft með liðum í Pepsi-deildinni og hann stefndi alltaf á það að fara til félags í efstu deild. Það kom því mörgum á óvart þegar það var tilkynnt í gær, að Pape væri farinn vestur á Ísafjörð til botnliðs 1. deildar.
„Þetta var alltaf í myndinni. Hér eru þrír mjög góðir vinir mínir í liðinu og eftir allt sem hefur gengið á, þá vildi ég komast aðeins í annað umhverfi," sagði Pape.
„Ég hafði lofað formanninum hjá BÍ/Bolungarvík að einn daginn myndi ég spila fyrir félagið og mér fannst þetta vera rétti tíminn til þess. Ég er kominn hingað til að gera mitt besta til að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í 1. deildinni. Það kemur í ljós með framhaldið eftir tímabilið hvað ég geri í kjölfarið," sagði Pape sem gerði samning við BÍ/Bolungarvík út þetta tímabil.
Ekki í sínu besta standi
Eins og fyrr segir er staða liðsins slæm. Pape segir hinsvegar að það sé allt hægt og hann hefur trú á því að liðið geti bjargað sér frá falli.
„Ég hef séð þá í einhverjum leikjum í sumar. Þeir eru í slæmri stöðu eins og staðan er núna. Ég er kominn hingað til að hjálpa liðinu og vonandi gengur það upp og við náum að halda okkur uppi í deildinni."
„Ef við vinnum saman sem lið þá held ég að við getum bjargað okkur frá falli," sagði Pape sem hefur ekki spilað knattspyrnuleik í að verða tvö mánuði.
„Ég er ekkert í mínu besta standi. Það er alveg ljóst. Ég hef verið að æfa sjálfur síðan ég hætti í Víking en síðan verður að koma í ljós hversu tilbúinn ég er, til að spila 90 mínútur í næstu leikjum."
Bað aldrei um að koma aftur
Eins og greint var frá í inngangi fréttarinnar, þá sagði Ólafur Þórðarson í viðtali við Fótbolti.net að Pape hafi viljað koma aftur í Víking, eftir að hann hætti hjá félaginu. Pape segir það ekki vera rétt og segist hafa undrast á orðum Ólafs.
„Ég var hissa þegar ég las viðtalið við Óla Þórðar hjá ykkur í vikunni. Ég hef ekki talað við hann eftir að ég hætti hjá Víkingi. Þegar við töluðum saman síðast fannst mér eins og hann hafi sýnt mér skilning og þá óskuðum við hvor öðrum góðs gengis. Þetta kemur því svolítið á óvart," sagði Pape, sem segir það ekki rétt hjá Ólafi, að hann hafi beðið um að koma aftur í Víking.
„Það kom ekkert frá mér, að ég vildi snúa aftur í Víking. Það voru menn í stjórninni sem hringdu í mig og voru að reyna finna bestu lausnirnar í þessu máli og þá var ég spurður hvort það væri möguleiki að reyna komast að einhverju samkomulagi og þá var ég spurður hvort ég hafði áhuga á því að koma aftur í Víking," sagði Pape sem segist þá hafa svarað því með þessum hætti:
„Ég sagðist vera tilbúinn að setjast niður með þeim. Ég sagði strax við þá að ef ég ætti að koma til baka, þá þyrftu hlutirnir að vera búnir að breytast til að þetta myndi ganga upp. Ég bað aldrei um að fá að koma aftur."
„Nokkrum klukkutímum eftir það samtal, þá hafði ég samband við formanninn og sagði honum að það væri líklega best að vera ekkert að reyna á þetta aftur. Þá var hann búinn að tala við Óla í millitíðinni og þar höfðu þeir rætt saman um að þetta væri ekki möguleiki," sagði Pape sem tekur það skýrt fram, að þetta hafi aldrei verið hans tillaga.
Hefur ekki talað við Ólaf síðan hann hætti
„Ég hringdi aldrei í Víkingana og bað þá um að fá að koma aftur. Það voru menn í stjórninni sem voru að reyna að finna lausnir, og þetta var einn möguleikinn sem þeir stungu upp á. Það kemur mér því á óvart að Óli skuli segja þetta. Ég hef ekki talað við hann eftir að ég hætti og ég veit ekki, hvað stjórnarmennirnir hafa sagt við Óla. En það sem Óli sagði í viðtalinu er alls ekki rétt. Ég veit ekki hvort að hann sé eitthvað bitur út í mig."
Ólafur talaði um í viðtalinu, að Pape hafi beðið um þetta á sama tíma og Víkingar ætluðu að ganga frá félagaskiptum hans við BÍ/Bolungarvík. Pape segir það til að mynda, heldur ekki vera rétt. Hann hafi aldrei verið búinn að ákveða það að fara í BÍ/Bolungarvík á þeim tíma, þar sem fleiri lið voru í myndinni.
„Það er algjört kjaftæði. Ég hafði fleiri möguleika í stöðunni en ég valdi síðan að fara hingað, þar sem ég vildi aðeins núll stilla mig og prófa eitthvað nýtt."
„Það kom alveg til greina að fara í Pepsi-deildina en málið er að ég hef misst af tveimur mánuðum og ég taldi það vera best í stöðunni fyrir mig, að fara í BÍ/Bolungarvík. Síðan skoða ég framhaldið í haust," sagði Pape.
Finnur til með leikmönnum Víkings
Pape segir að það vera erfitt að fylgjast með Víkingunum í Pepsi-deildinni í sumar og hann segist finna til með þeim.
„Mér finnst hundleiðinlegt að Víkingur sé í þessari stöðu í Pepsi-deildinni. Þegar ég tók þessa ákvörðun datt mér ekki í hug, að liðið yrði í botnbaráttu. Ég vona innilega að þeir snúi þessu við, því þetta eru flottir strákar og vonandi fer þetta að detta með þeim."
Í viðtalinu við Ólaf í vikunni talaði hann til að mynda um að brotthvarf Pape frá félaginu hafi tekið sinn toll hjá liðinu. Pape segir að Ólafur geti ekki notað það sem einhverja afsökun.
„Óli getur ekki notað þetta sem afsökun fyrir slöku gengi liðsins og að hann hafi misst starfið," sagði Pape og hélt áfram:
„Hann er með nánast 25 manna leikmannahóp og Víkingur splæsti í marga framherja í vetur. Staðan var orðin þannig, að ég hafði ekki meiri þolinmæði í að bíða lengur, þangað til að þjálfarnir myndu nota mig rétt. Það var alveg sama hvað ég sýndi, það var eins og ég gerði aldrei nóg fyrir þá. Þeir voru ekkert að reyna hjálpa mér að ná lengra. Ég beið eftir rétta tækifærinu í þrjú ár og gat ekki beðið lengur."
Þjálfarar standa oft ekki við orð sín
Pape vill þó koma því á framfæri að hann sé ekki að reyna tala illa um Ólaf, sem hefur þjálfað hann lengi. Ólafur þjálfaði Pape til að mynda hjá Fylki hér árum áður. Hann segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun að hafa hætt hjá Víkingi.
„Þjálfarar segja oft við leikmenn sem þeir standa síðan ekki við. En ég er orðinn nógu þroskaður til að taka mínar eigin ákvarðanir og þetta var ekkert fyrir mig lengur. Ég varð því miður að taka þessa ákvörðun. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun. Þetta er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið lengi."
„Ég er alls ekki að reyna tala illa um Óla eða neitt svoleiðis. Mér líkar vel við Óla og hann hefur þjálfað mig lengi. En það var margt sem ég var ekki sammála honum um, fyrir utan það er Óli frábær. En það er margt sem tengist fótboltanum sem ég var ekki sammála, Óla og Milos."
„Fyrir mótið trúði ég því að hlutirnir gætu breyst en svo þegar mótið hófst þá fattaði ég það, að það var ekkert að fara breytast. Þá þurfti ég að bregðast við og ég gerði það fyrir sjálfan mig. Óli er kannski ennþá ósáttur við mig og þá er það bara þannig. Ég lifi með því, sagði Pape sem lítur björtum augum á framhaldið og hlakkar til tímans á Vestfjörðum.
„Nú er ég kominn vestur og ég ætla njóta þess eins mikið og ég get að vera hérna," sagði Pape Mamadou Faye, leikmaður BÍ/Bolungarvíkur að lokum.
Athugasemdir