Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 23. maí 2005 23:24
Haraldur Hreinsson
Skagamenn fara í fýluferð á Hlíðarenda (Umfjöllun)
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Valsarar tóku á móti Skagamönnum í sólskininu á Hlíðarenda í kvöld.

Þungvægasta breytingin á liðunum var að sjálfsögðu í liði Skagamanna en hinn þaulreyndi markvörður þeirra, Þórður Þórðarson, mun ekki geta leikið meira með Skagamönnum vegna veikinda. Án efa er erfitt að fylla í skarð hans og hefur brotthvarf hans haft mikil áhrif á lið Skagamanna. Það kom í hlut varamarkvarðar liðsins, Páls Gísla Jónssonar, að fylla skarð hans í kvöld.

Upphaf leiksins var mjög fjörugt. Sóknarmaður ÍA, Hjörtur Hjartarson komst í gott færi snemma leiks en Kjartan Sturluson, markvörður Valsmanna sá við honum. Skömmu seinna, eða á 7. mínútu kom mark í leikinn. Guðmundur Benediktsson átti stórglæsilega sendingu inn á teig Skagamanna þar sem Garðar Gunnlaugsson var vel staðsettur og setti boltann á laglegan hátt í net síns gamla liðs.
Eftir markið héldu Valsarar sókn sinni áfram. Varnaleikur Skagamanna virtist vera óstöðugur í leiknum í kvöld og gætti sambandsleysis og óöryggis. Matthías Guðmundsson, sem átti mjög góðan leik fyrir Val í kvöld, olli þeim miklum vandræðum með sínum mikla hraða og tók góðan sprett upp hægri kantinn á tíundu mínútu en ekkert varð úr því. Hann tók aðra syrpu upp völlinn örskömmu síðar og gaf á Bjarna Ólaf Eiríksson sem átti skot rétt yfir. Á 18. mínútu var Matthías enn og aftur á ferðinni. Þá hljóp hann nánast upp allan völlinn, lék á varnarmenn ÍA en skaut boltanum framhjá markinu.

Skagamenn voru ekki minna með boltann en Valsarar en náðu ekki vinna nógu vel úr þeim tækifærum sem þeir fengu og voru sendingar ónákvæmar. Mikið var um kýlingar fram völlinn, það á þó við um lið beggja reyndar. Lið Skagamanna náði sjaldan að skapa hættu upp við mark Valsmanna en helst voru það fyrirgjafir og sendingar Ellerts Jóns Björnssonar sem náðu að valda usla í Valsvörninni.

Á 41. mínútu komst Ellert t.a.m. í gott færi en skaut framhjá. Vörn Valsara var föst fyrir allan leikinn og átti Grétar Sigfinnur Sigurðsson stórleik í miðvarðarstöðunni.
Fyrri hálfleikur leið undir lok án þess að fleiri mörk kæmu. Seinni hálfleikur byrjaði eins og hinn fyrri, af krafti. Skagamenn virtust ekki hafa tekið á þeim vandamálum sem þeir áttu við að etja í vörninni í fyrri hálfleik og enn gætti óöryggis.

Á 52. mínútu leiksins áttu Valsarar stórsókn. Sigurbjörn Hreiðarsson, fyrirliði Valsmanna, var í dauðafæri en skaut í Reyni Leósson. Boltinn barst svo til Atla Sveins Þórarinssonar sem skaut í stöngina. Valsmenn svo sannarlega óheppni að auka ekki forystu sína þarna en þeir þurftu ekki að bíða lengi.

Tveimur mínútum síðar, eða á 54. mínútu dæmdi Garðar Örn Hinriksson vítaspyrnu. Reynir Leósson brá Garðari Gunnlaugssyni í teignum en Skagamenn voru alls ekki ánægðir með þennan dóm og vildu meina að Reynir hefði náð boltanum á lögmætan hátt og vel getur verið að þeir hafi haft eitthvað til síns máls. En dómurinn stóð og vítaspyrnuna tók Sigurbjörn Hreiðarsson sem setti boltann vinstra megin við Pál Gísla Jónsson, markvörð Skagamanna.

Stuttu síðar komst Sigurbjörn í algert dauðafæri. Sending barst utan af velli inn fyrir vörn Skagamanna og var Sigurbjörn kominn einn á móti Páli Gísla. Páll varði þó meistaralega frá Sigurbirni sem hefði vel getað aukið enn við forystu heimamanna.

Á 59. mínútu sýndi Matthías enn og aftur glæsilega takta þegar hann tók sprett upp hægri vænginn og lék á hvern Skagamanninn á fætur öðrum. Sú sókn rann þó út í sandinn. Valsarar voru mun beittari fram á við en Skagamenn létu varla til sín taka eftir seinna markið og voru beinlínis slakir. Hafþór Vilhjálmsson á þó hrós skilið fyrir að vera mjög sprækur á vinstri kantinum í liði Skagamanna og var einn besti maðurinn í þeirra liði.
Þegar líða tók á leikinn varð nokkuð mikið um það að sóknir rynnu út í sandinn. Hvorugt lið náði að skapa hættu en Valsarar héldu þó yfirhöndinni gegn líflausum Skagamönnum sem virtust ekki hafa nein svör við góðum varnaleik heimamanna.

Leiknum lauk því með 2-0 sigri heimamanna. Eftir leikinn, sem var síðasti leikur í 2. umferð efstu deildar karla, eru Skagamenn í sjötta sæti deildarinnar en Valsmenn, sem hafa nú unnið báða leiki sína, eru í öðru sæti. Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals, getur því að vonum verið ánægður með þessa byrjun á tímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner