Það er fylgifiskur fótboltans að það geta ekki allir náð sér á strik. Fréttaritarar Fótbolta.net settu saman vonbrigðalið Pepsi-deildarinnar nú þegar mótið er um það bil hálfnað en í liðinu má sjá stór nöfn.
Cristian Martínez - KA: Miklar vonir voru bundnar við spænska markvörðinn sem fenginn var frá Ólafsvík. Þessi öflugi markvörður hefur ekki náð sér á strik en flott frammistaða í síðasta leik gæti verið merki þess að nú fari að birta til.
Marc McAusland - Keflavík: Einn besti leikmaður Inkasso-deildarinnar í fyrra en það hefur verið leki í vörn Keflavíkur í sumar og allt bendir til þess að þeir fari aftur niður.
Hans Viktor Guðmundsson - Fjölnir: Er í miklum metum í Grafarvogi en ekki náð að taka næsta skref og er nú geymdur á bekknum.
Aleksandar Trninic - KA: Alltaf líklegur til að gera dýrkeypt mistök eða fá rautt spjald. Hefur verið tifandi tímasprengja hjá Akureyrarliðinu.
Davíð Þór Viðarsson - FH: Einn besti miðjumaður deildarinnar en hefur ekki náð sér á strik þetta tímabilið og það bitnar á FH.
Óskar Örn Hauksson - KR: Maður gerir alltaf miklar væntingar til Óskars enda einn sá hæfileikaríkasti í deildinni. Því miður fyrir KR hefur hann verið langt frá sínu besta og er ekki kominn með mark í deildinni.
Kristinn Steindórsson - FH: Blikar voru svekktir þegar Kristinn valdi að fara til FH. En þeir hafa líklega jafnað sig fljótt miðað við hversu týndur leikmaðurinn hefur verið.
Vladimir Tufegdzic - Víkingur: Hvað gerðist fyrir Tufa? Virkar áhugalítill og með einbeitinguna á einhverju allt öðru.
Andre Bjerregaard - KR: Eftir lofandi frammistöðu í fyrra hefur Daninn afskaplega lítið sýnt í sumar. Virðist aðallega vera pirraður.
Hrvoje Tokic - Breiðablik: Kann að skora mörk en virtist of latur til að nenna að sýna það í Kópavoginum. Fær leikheimild með Selfossi síðar í þessum mánuði.
Athugasemdir